Bátur úr endurunnu plasti sjósettur í London

Á dögunum sjósettu umhverfissamtökin Hubbub bát sem er að 99 hundraðshlutum gerður úr endurunnu plasti. Báturinn, sem nefndur hefur verið Poly-Mer, verður notaður til að safna plastrusli af hafnarsvæðum Lundúna og vekja fólk í leiðinni til vitundar um mikilvægi þess að umgangast plast af ábyrgð og varúð þannig að það lendi ekki í sjónum. Poly-Mer er fyrsti báturinn í heiminum sem smíðaður er úr plastúrgangi.
(Sjá frétt á heimasíðu Recycling & Waste World 2. nóvember).

Lyfsölurisi með átak í söfnun lyfjaúrgangs

CVS_lyfLyfsölurisinn CVS í Bandaríkjunum hefur tekið til við að dreifa sérstökum tunnum fyrir lyfjaúrgang til sveitarfélaga og lögregluembætta með það að markmiði að lágmarka neikvæð áhrif úrgangsins á umhverfi og samfélag. Talið er að um 10-30% allra lyfja sem seld eru vestra séu aldrei notuð og safnist því fyrir í skápum eða endi annað hvort í salerninu eða ruslinu. Þaðan berist þau oftar en ekki í vötn og haf og geti þar skaðað vistkerfi og jafnvel heilsu manna ef þau berast inn í fæðukeðjuna. Lyfjaafgöngum á alla jafna að skila í apótek, því að erfitt hefur reynst að tryggja að lyfjaleifum sem skilað er á grenndarstöðvar sé ekki stolið úr gámunum. CVS hefur nú þegar dreift 275 sérstökum söfnunarílátum sem standast kröfur um öryggi og stefnir að því að færa yfirvöldum víðsvegar um Bandaríkin um 700 stykki til viðbótar á næstu misserum.
(Sjá frétt ENN í dag).