Sólarrafhlöður úr rækjuskel

crustacean_160Vísindamenn við Queen Mary háskólann í London hafa þróað byltingarkennda aðferð til að framleiða sólfangara úr efnum sem finnast í rækju- og krabbaskeljum. Aðferðin byggir á nanótækni þar sem vatnsvarmakolun (e. hydrothermal carbonisation) er beitt til að framleiða kolefnisskammtadepla (e. carbon quantum dots (CQDs)) úr kítíni og kítósan úr skel. Grunneiningar sólfangaranna eru svo búnar til úr sinkoxíðnanóstöngum sem húðaðar eru með deplunum. Þetta er í fyrsta sinn sem lífmassi er notaður til framleiðslu á sólföngurum, en yfirleitt er notast við dýra málma á borð við rúten. Með þessari nýju aðferð er bæði dregið úr umhverfisáhrifum og kostnaði, þar sem uppistaðan í framleiðslunni eru afgangsefni úr annarri framleiðslu. Vonir standa til að í framtíðinni verði hægt að nota þessa tækni við framleiðslu á nær gegnsæjum sólarorkufilmum í glugga, hleðslutæki fyrir smáraftæki o.fl.
(Sjá frétt EDIE 19. febrúar).