Erlend landbúnaðarfyrirtæki stuðla að vatnsskorti í Afríku

africa-green-waterMikil vatnsþörf korntegunda sem ræktaðar eru á svæðum sem erlend fyrirtæki hafa tekið á leigu í Afríku til landbúnaðarnota á sinn þátt í vaxandi vatnsskorti í álfunni og harðari samkeppni um vatnsauðlindina. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi, sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Það sem af er öldinni hafa erlend fyrirtæki tekið á leigu stórar spildur í Afríku í þeim tilgangi að rækta þar ódýrar matjurtir, ódýrt timbur og ódýrt hráefni til framleiðslu á lífeldsneyti. Tegundirnar sem ræktaðar eru á þessum svæðum eru iðulega frekari á vatn en þær tegundir sem ræktaðar hafa verið á svæðunum til þessa. Þessu hefur fylgt stóraukin nýting á ferskvatni til vökvunar í stað regnvatns sem áður dugði að mestu leyti. Leigusamningar um land í Afríku eru gjarnan gerðir til allt að 99 ára og fela sjaldnast í sér nokkrar takmarkanir á vatnsnotkun.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Hringrásarhagkerfið gæti skapað 100.000 ný störf í Svíþjóð

circular_economy_160Með stefnumótun í anda hringrásarhagkerfisins (e. circular economy) væri hægt að skapa 100.000 ný störf á sænskum vinnumarkaði og minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 70% fram til ársins 2030. Þetta er niðurstaða nýrrar skýrslu Rómarklúbbsins (e. The Club of Rome), sem byggð er á raundæmarannsókn sem gerð var í Svíþjóð. Þessum árangri mætti ná með breyttum áherslum yfirvalda í stefnumótun og ráðstöfun fjármuna. Mikilvægustu áhersluflokkarnir eru taldir vera þrír, þ.e.a.s. endurnýjanleg orka, orkunýtni og bætt auðlindanýting. Sérstaklega sé mikilvægt að bæta nýtingu auðlinda, svo sem í námuvinnslu, svo og að lengja líftíma vöru með betri viðgerðarþjónustu, hugbúnaðarþjónustu, þróun endurvinnslutækni o.s.frv. Með aukinni áherslu á viðhald og endingu og með kaupum á þjónustu í stað vöru skapast mun fleiri störf en í frumvinnslu og álag á auðlindir minnkar til muna.
(Sjá frétt the Guardian 15. apríl).

Yfirdráttardagurinn var í gær!

yfirdrattur_160Yfirdráttardagurinn var í gær, 19. ágúst, en þá var mannkynið búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin nær að framleiða á þessu ári. Samtökin Global Footprint Network hafa þróað reiknilíkan til að áætla vistspor þjóða og reikna með því út fjölda jarða sem heimsbyggðin þarf til að standa undir neyslu sinni. Þannig tímasetja samtökin jafnframt yfirdráttardaginn á hverju ári. Í fréttayfirlýsingu frá samtökunum kemur fram að árið 1961 hafi mannkynið árlega notað um einn þriðja af auðlindum jarðar, en í dag búa um 86% heimsbyggðarinnar í löndum þar sem úttektir auðlinda eru hærri en innborganir. Frá og með deginum í gær er mannkynið því að ganga á varabirgðir jarðarinnar eða lifa á yfirdrætti. Yfirdráttardaginn bar upp degi fyrr í ár en í fyrra.
(Sjá tilkynningu Global Footprint Network í gær).