Helmingur af öllu gulli í farsímum fer forgörðum

simiUm 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).

Siðgæðisvottaðir trúlofunarhringar

I_Do_160Fairtrade samtökin í Bretlandi hófu í gær átaksverkefnið „I Do“ sem hvetur fólk í giftingarhugleiðingum til að velja siðgæðisvottaða trúlofunar- og giftingarhringa. Siðgæðisvottað gull tryggir vinnuöryggi, eykur fræðslu, bætir heilsugæslu og tryggir lífsviðurværi verkamanna í gullnámum heimsins. Laun námuverkamanna geta verið allt niður i 1 bandaríkjadollar á dag (um 131 ísl. kr.), auk þess sem verkamennirnir starfa oft við hættulegar aðstæður í daglegri snertingu við efni á borð við kvikasilfur, sýaníð og saltpéturssýru. Verkefnisstjóri „I Do“ segir verkefnið einstaklega mikilvægt vegna þess að „gull er svo falleg vara sem fólk tengir við rómantík og birtu. Með því að nota Fairtrade til að tryggja gegnsæi og sýna uppruna gullsins, verður varan enn sérstakari“.
(Sjá frétt Fairtrade í Bretlandi 13. janúar).

Rúmt tonn af úrgangi fyrir gramm af gulli

Gera má ráð fyrir að til framleiðslu á einu grammi af gulli þurfi 55 kwst af raforku og 260 lítra af vatni. Í ferlinu falla til um 1,27 tonn af úrgangi og 18 kg af koltvísýringi sleppa út í andrúmsloftið. Þessar tölur komu fram í lífsferlisgreiningu sem sagt var frá í tímaritinu Journal of Cleaner Production á liðnu sumri.
(Sjá grein í júlíhefti Journal of Cleaner Production)