Um 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).