Vökvað með skólpi á Samsø

Á dönsku eyjunni Samsø er verið að gera tilraun með að nýta fráveituvatn til vökvunar. Venjulega leiðin í þessu er að vinna köfnunarefni og fosfór úr vatninu áður en því er sleppt út í viðtaka og nýta þessi efni síðan í áburðarframleiðslu af einhverju tagi. Nýjungin sem hér um ræðir felst í að nota fráveituvatnið beinlínis sem áburð en fyrst eru þó hreinsuð úr því hættuleg efni. Með þessu sparast orka sem annars fer í fyrsta lagi í að ná næringarefnunum úr vatninu og í öðru lagi í að framleiða áburð úr þeim. Fyrst um sinn verður þetta vatn aðeins notað á tún og önnur svæði sem ekki eru nýtt beint í matvælaframleiðslu, en í framtíðinni standa vonir til að hægt verði að útvíkka notkunina. Hópur sem nefnir sig Minor Change Group stendur að verkefninu með stuðningi Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. ágúst).

Hænsni endurvinna lífrænan úrgang á Samsø

hønselaugHópur íbúa á Samsø í Danmörku hefur tekið sig saman um stofnun hænsnafélaga sem ætlað er að nýta grænmetisúrgang frá heimilum á eynni, en þessi úrgangur hefur hingað til að mestu endað í sorpbrennslustöðvum. Gert er ráð fyrir að a.m.k. 10 heimili standi að hverju hænsnafélagi, en einstakar fjölskyldur geta þó komið sér upp eigin hænsnabúum innan ramma verkefnisins, svo fremi sem fylgt er settum reglum um nýtingu grænmetisúrgangs. Markmiðið með verkefninu er ekki aðeins að sýna fram á að þetta sé mögulegt, heldur einnig að efla samstöðu íbúanna, stuðla að breyttu hegðunarmynstri, skapa atvinnutækifæri og framleiða egg, kjúklinga og áburð fyrir eyjarskeggja. Ætlunin er að verkefnið nái til 60% af öllum heimilum á Samsø.
(Sjá frétt á heimasíðu Náttúruverndarsamtaka Danmerkur (DN) 14. nóvember).