Helmingur af öllu gulli í farsímum fer forgörðum

simiUm 50% af öllu því gulli sem til staðar er í farsímum fer forgörðum eftir að hætt er að nota símana. Brýnt er að lengja endingartíma síma og bæta söfnun þeirra að notkun lokinni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í kortlagningu á verðmætum málmum í farsímum, sem sagt er frá í októberhefti tímaritsins Resources, Conservation and Recycling. Í gulli liggja 80% af þeim verðmætum sem finna má í málminnihaldi farsíma, en þar er einnig nokkuð af öðrum dýrmætum málmum, svo sem kopar, silfri og palladíum. Ef núverandi þróun heldur áfram má gera ráð fyrir að árið 2050 verði endurnýtingarhlutfall gulls úr farsímum komið niður í 20%. Þessi þróun stangast á við áætlanir ríkja Evrópusambandsins um hringrásarhagkerfi og mun leiða til mun hraðari eyðingar auðlinda en þörf er á, þ.e. ef ekki verður gripið til aðgerða til að draga úr sóuninni.
(Sjá fréttabréf ESB, Science for Environmental Policy, 16. september).

Líftími raftækja styttist með hverju ári

tvLíftími raftækja styttist með hverju árinu sem líður samkvæmt nýrri rannsókn frá Umhverfisstofnun Þýskalands. Bilanatíðni hefur aukist á sama tíma og tískustraumar og nýjar útgáfur stýra markaðnum og raftækjum er í auknum mæli skipt út þó að þau séu nýleg og vel nothæf. Þetta hefur í för með sér aukið álag á auðlindir heimsins og eykur umhverfisáhrif raftækjanna. Hlutfall stórra raftækja sem bila fyrstu 5 árin hækkaði úr 3,5% í 8,3% á árunum 2004-2013. Þrátt fyrir þetta eru neytendur ánægðir með endingu raftækja. Forstjóri Umhverfisstofnunar Þýskalands kallar eftir lögbundnum lágmarkskröfum um líftíma raftækja, merkingum sem sýna líftíma vörunnar og að lögð sé áhersla á að auðvelt sé að gera við vöruna og skipta út hlutum.
(Sjá frétt EurActiv 16. febrúar).

Raftækjaúrgangur á villigötum

weee_160Raftækjaúrgangur fyrir 19 milljarða Bandaríkjadala (um 2.500 milljarða ísl. kr.) er seldur árlega á svörtum markaði eða honum fargað á ólöglegan hátt samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunnar Sameinuðu þjóðanna (UNEP). Samkvæmt skýrslunni er þarna um að ræða 60-90% af öllum raftækjaúrgangi sem til fellur, en samtals verður um 41 milljón tonna af raftækjum að úrgangi á ári hverju. Raftækjaúrgangur er iðulega fluttur ólöglega til þróunarríkja þar sem verðmætir málmar og fleiri efni eru tínd úr og seld. Þetta er oftast gert við mjög slæm skilyrði þar sem starfsmenn eru í daglegri snertingu við skaðleg efni og þungmálma sem geta safnast upp í líkamanum. UNEP bendir einnig á að með þessu séu þjóðir að missa auðlindir úr landi þar sem úrgangsmeðhöndlun og flokkun úrgangs getur verið atvinnuskapandi í heimalandinu og skapað verðmæti með sölu endurvinnanlegra efna. Mikilvægt sé að taka á þessu vandamáli með auknu alþjóðlegu samstarfi og samræmi í löggjöf og eftirfylgni á heimsvísu og í hverju landi fyrir sig.
(Sjá frétt UNEP í dag).

Ný tækni í endurvinnslu flatskjáa

FPD processingFyrirtækið EWRG (Electrical Waste Recycling Group) í Huddersfield í Bretlandi hefur fengið starfsleyfi fyrir nýja vinnslulínu, þá fyrstu sinnar tegundar í heiminum, sem undirbýr ónýta flatskjái til endurvinnslu á mun skemmri tíma en áður hefur þekkst. Endurvinnsla flatskjáa er flókið verk, þar sem flatskjáirnir innihalda fjöldann allan af hlutum sem erfitt er að aðskilja. Með þeim aðferðum sem beitt hefur verið tekur niðurrifið að lágmarki um 15 mín. á hvern skjá ef öllum reglum er fylgt, en með nýja búnaðinum tekur þetta ekki nema 6 sek. Um ein milljón ónýtra flatskjáa fellur til í Bretlandi í hverjum mánuði.
(Sjá frétt Waste Management World 6. desember).

Úrvinnslugjöld endurspegli mismunandi umhverfiskostnað

Í nýrri úttekt sem European Environmental Bureau (EEB) vann fyrir Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kemur fram að með því að láta framleiðendur rafeindatækja greiða mishá úrvinnslugjöld eftir umhverfislegu ágæti tækjanna sem þeir framleiða, megi fá þá til að leggja meiri áherslu á vistvæna hönnun. Hingað til þykir framleiðendaábyrgð á rafeindatækjum ekki hafa skilað sér í aukinni framleiðslu á umhverfisvænni tækjum, eins og þó var stefnt að þegar framleiðendaábyrgðin var innleidd með samþykkt svonefndrar WEEE-tilskipunar Evrópusambandsins. Skilagjald á lítil rafeindatæki er meðal annarra tillagna sem settar eru fram í úttektinni.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 22. nóvember).