Gróðurhúsalofttegund breytt í fljótandi eldsneyti

Vísindamönnum við Rice háskólann hefur tekist að nota raforku til að breyta koldíoxíði í maurasýru í hvarftanki án þess að nota saltlausn og þar með án þess að þurfa að fara í gegnum orkufrekt og kostnaðarsamt hreinsunarferli. Sýruna er síðan hægt að nota sem hráefni eða breyta henni aftur í rafmagn í efnahverflum, rétt eins og nú er gert með vetni. Maurasýran hefur það fram yfir vetnið að geta geymt 1.000 sinnum meiri orku í sama rúmmáli. Vissulega losnar koldíoxíð þegar sýran er klofin á nýjan leik en það koldíoxíð er hægt að nýta aftur og aftur. Sé endurnýjanleg raforka notuð í ferlinu getur ávinningurinn verið verulegur í samanburði við þær aðferðir sem beitt hefur verið hingað til. Orkunýtingarhlutfallið í hvarftankinum er um 42% sem þýðir að 42% af raforkunni sem notuð er í ferlinu skilar sér í nýtanlegri orku í maurasýrunni. Nýjungin í þessu byggir á tvennu; annars vegar að nota bismút (Bi) sem hvata og hins vegar að þróa raflausn í föstu formi í stað saltlausnar.
(Sjá frétt Science Daily 3. september).

Ný aðferð við rafgreiningu lofar góðu

bubble-news-web-160Vísindamenn við Ríkisháskólann í Washington (Washington State University (WSU)) hafa fundið nýja leið til að framleiða vetni með rafgreiningu vatns. Aðferðin byggir á því að nota nanóagnir úr kopar sem efnahvata í samspili við kóbalt, en hingað til hafa menn yfirleitt notað mun dýrari málma, svo sem platínu eða rúten. Nýja aðferðin er ekki einungis mun ódýrari en fyrri aðferðir, heldur skilar hún jafngóðum eða betri árangri í rafgreiningu. Þessi uppgötvun er talin geta flýtt fyrir þróun vetnisframleiðslu, sem er í senn fjárhagslega hagkvæm, umhverfisvæn og orkunýtin. Þetta kann því að vera mikilvægt framfaraskref í orkugeymslu og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
(Sjá frétt á heimasíðu WSU 25. október).