Vísindamenn við háskólann í Dundee í Skotlandi hafa komist að því að hinn algengi saurgerill E. coli getur breytt koltvísýringi úr andrúmsloftinu í maurasýru. Við súrefnissnauðar aðstæður myndar bakterían svonefnt FHL-ensím sem gerir þetta efnahvarf mögulegt. Þetta ferli gengur afar hægt fyrir sig við venjulegar aðstæður en sé bakterían sett í blöndu af koltvísýringi og vetni við 10 loftþyngda þrýsting hvarfast allur tiltækur koltvísýringur í maurasýru á skömmum tíma. Þessi uppgötvun kann að opna nýjar leiðir í kolefnisbindingu, enda er maurasýra vökvi sem auðvelt er að geyma og er auk þess nýtanlegur á ýmsan hátt.
(Sjá frétt á heimasíðu Háskólans í Dundee 8. janúar).
Greinasafn fyrir merki: koltvísýringur
Kolefni á föstu formi unnið úr koltvísýringi
Japanskir og kínverskir vísindamenn sem unnið hafa að þróun litíum-loft-rafhlöðu hafa fyrir tilviljun uppgötvað aðferð sem hugsanlega er hægt að beita til að framleiða kolefnisduft og hreint súrefni úr koltvísýringi andrúmsloftsins. Á þessu stigi dugar aðferðin einungis fyrir óblandaðan koltvísýring en ef takast mætti að beita henni á koltvísýring í andrúmslofti gæti það opnað alveg nýja möguleika í kolefnisbindingu. Nýjungin felst ekki síst í því að ná kolefninu á föstu formi í stað þess að þurfa að fást við lofttegundir sem síðan þarf að þjappa eða breyta í vökva með tilheyrandi orkueyðslu. Fræðilega séð mætti nota sömu aðferð til að hreinsa tilteknar mengandi lofttegundir úr andrúmsloftinu.
(Sjá frétt Science Daily 9. ágúst).
Ódýr hálfleiðari gefur nýjar vonir
Efnafræðingar við Arlingtonháskólann í Texas hafa sýnt fram á að hægt er nota fjölliðuna pólýanilín sem ljósskaut (e. photocathode) í sólarsellu sem klýfur koltvísýring sem síðan er hægt að vinna áfram í alkóhól til eldsneytis. Kostirnir við þessa aðferð umfram þær sem áður hafa verið notaðar eru m.a. þeir að í þessu tilviki þarf ekki utanaðkomandi efnahvata og auk þess eiga efnahvörfin sér stað við lágan hita. Ef mögulegt reynist að nota þessa aðferð við eldsneytisframleiðslu opnast ýmsir nýir möguleikar, m.a. vegna þess að pólýanilín er ódýrt efni sem auðvelt er að breyta í dúk eða filmu. Slíka dúka eða filmur mætti nota í stórum stíl á þök og á aðra fleti sem þar með gætu nýst við eldsneytisframleiðsluna.
(Sjá frétt Science Daily 20. september).
Áframhaldandi samdráttur í koltvísýringslosun nýrra bíla
Evrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).
Koltvísýringi breytt í metanól
Vísindamönnum við Háskólann í Suður-Kaliforníu (USC) hefur tekist, fyrstum manna, að framleiða metanól úr koltvísýringi eins og hann kemur fyrir í andrúmsloftinu. Hingað til hefur metanól einungis verið framleitt úr koltvísýringi í háum styrk og við hátt hitastig. Hin nýja aðferð felst í að dæla andrúmslofti í gegnum vatnslausn af pentaetýlenhexamíni (PEHA) að viðbættum efnahvata sem fær vetni til að bindast koltvísýringi undir þrýstingi. Þessi lausn er síðan hituð upp í 125-165°C sem er mun lægra hitastig en notað hefur verið í fyrri aðferðum. Lægra hitastig útheimtir augljóslega minni orku, auk þess sem það eykur endingu efnahvatans. Með þessu móti hefur vísindamönnunum tekist að breyta 79% af koltvísýringnum í metanól. Þannig eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Koltvísýringur er fjarlægður úr andrúmsloftinu og til verður endurnýjanlegt eldsneyti sem getur komið í stað jarðefnaeldsneytis sem orkugjafi og hráefni í efnaiðnaði. Að minnsta kosti 5-10 ár munu þó líða áður en þetta eldsneyti verður orðið samkeppnisfært í verði.
(Sjá frétt ScienceDaily 2. febrúar).
Koltvísýringur ruglar fiska í ríminu
Hækkandi styrkur koltvísýrings í heimshöfunum getur ruglað fiska í ríminu og skert ratvísi þeirra. Þetta samhengi hefur verið þekkt um hríð, en nýjar rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu (UNSW) benda til að þetta geti gerst mun fyrr en áður var talið. Þannig gætu fiskar á tilteknum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður-Atlantshafi, verið komnir í annarlegt ástand vegna koltvísýringshækkunar um miðja þessa öld. Um næstu aldamót gæti um helmingur allra dýra í heimshöfunum verið orðinn ringlaður af þessum sökum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á lífríki og hagkerfi ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt Science Daily í dag).
Kolefniskræfnin minnkar allt of hægt
Kolefniskræfni (e. carbon intensity) hagkerfa heimsins minnkaði um 2,7% á árinu 2014, en kolefniskræfni er mælikvarði á koltvísýringslosun á hvern dollar af vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta kemur fram í tölum sem endurskoðunarfyrirtækið PWC birti í dag. Hér er um að ræða mestu lækkun á einu ári frá því að tölur af þessu tagi voru fyrst birtar fyrir 7 árum. Á árinu jókst samanlögð landsframleiðsla um 3,2% á sama tíma og kolefnislosun jókst um 0,5%. Þessi samdráttur er þó langt frá því að vera nægjanlegur til að hægt verði að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C eins og stefnt er að. Til þess þyrfti kolefniskræfnin að minnka um 6,3% árlega. Talsmaður PwC orðar það svo að þörf sé á byltingu í orkugeiranum í öllum ríkjum heims. Frá árinu 2000 hefur kolefniskræfnin aðeins minnkað um 1,3% á ári að meðaltali og ef sú þróun helst verða jarðarbúar að hætta alfarið að losa kolefni út í andrúmsloftið árið 2036 til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Nýtt vottunarkerfi fyrir aðfangakeðjur
Fyrirtækið Carbon Trust kynnti í dag nýjan staðal fyrir vottun á aðfangakeðjum fyrirtækja með tilliti til kolefnislosunar. Til að fá vottun þurfa fyrirtæki að koma á samstarfi við birgja um minnkun kolefnislosunar og sýna fram á að tekist hafi að draga úr losun í einstökum hlutum aðfangakeðjunnar. Með staðlinum, sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum, er komið til móts við fyrirtæki sem hafa áttað sig á að bein umhverfisáhrif innan fyrirtækisins eru yfirleitt aðeins brot af þeim áhrifum sem verða til ofar í aðfangakeðjunni, svo sem við vinnslu hráefna, framleiðslu íhluta o.s.frv. Vottun aðfangakeðjunnar er því mikilvægur liður í að draga úr heildaráhrifum hinnar endanlegu vöru á umhverfið.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Rafhjól leysa einkabílinn af hólmi
Árið 2030 er líklegt að notkun rafhjóla í Þýskalandi muni koma í veg fyrir losun á um 1,5 milljónum tonna af koltvísýringi, eða sem samsvarar losun frá um 100.000 manna bæjarfélagi, ef marka má nýja greiningu Háskólans í Braunschweig á atferli rafhjólanotenda. Þar kom fram að rafhjól séu oftast notuð í stað einkabíla en leysi sjaldnar venjuleg reiðhjól af hólmi. Rafhjól eru samkvæmt rannsókninni mest notuð til að ferðast til og frá vinnu. Í dag eru um 2 milljónir rafhjóla í notkun í Þýskalandi og er ferðamátinn orðinn vinsæll þar í landi. Niðurstöður greiningarinnar gefa einnig til kynna að til þess að fjölga rafhjólum þurfi að bæta innviði, svo sem hjólastíga og hjólastæði sem henta þörfum rafhjólanotenda.
(Sjá frétt Sveriges Radio 2. september).
Koltvísýringi breytt í „demanta af himnum“
Hópur efnafræðinga við George Washington háskólann telur sig hafa fundið hagkvæma aðferð til að framleiða koltrefjar úr koltvísýringi úr andrúmsloftinu. Aðferðin byggir á rafgreiningu, þar sem andrúmsloft er leitt niður í 750 stiga heita raflausn með bráðnum karbónötum innan um rafskaut úr stáli og nikkel. Við þessar aðstæður klofna koltvísýringssameindir í kolefni og súrefni, kolefnið sest á stálskautið og myndar trefjar sem hægt er að fjarlægja og nota til framleiðslu á ýmsum varningi. Gert er ráð fyrir að sólarorka sé notuð við framleiðsluna og er orkukostnaður áætlaður samtals um 1.000 dollarar á tonnið, sem er aðeins brot af söluverðmæti afurðarinnar. Framleiðslan er enn á tilraunastigi, en með því að nýta sólarorku á 10% af flatarmáli Sahara-eyðimerkurinnar væri að sögn aðstandenda hægt að fjarlægja nógu mikinn koltvísýring úr andrúmsloftinu á 10 árum til að styrkur efnisins verði sá sami og hann var fyrir upphaf iðnbyltingarinnar.
(Sjá frétt Science Daily 19. ágúst).