Öll raforka á Kosta Ríka endurnýjanleg í 300 daga á þessu ári

Það sem af er þessu ári hefur Kosta Ríka notað eingöngu endurnýjanlega raforku í samtals 300 daga. Þetta er nýtt met þar í landi, en árið 2015 náðust samtals 299 dagar. Nú koma um 99,6% af raforku landsins frá endurnýjanlegum orkugjöfum, þar af 78,3% frá vatnsorku, 10,3% frá vindorku, 10,2% frá jarðvarma og 0,8% frá sólarorku og lífmassa. Almennt er litið á Kosta Ríka sem fyrirmynd annarra þjóða í umhverfismálum. Þarlend stjórnvöld hafa látið til sín taka á fleiri sviðum en í orkugeiranum og m.a. tekið ákvörðun um að banna allt einnota plast fyrir árið 2021.
(Sjá frétt EcoWatch 21. nóvember).

Endurheimt skóga í hlíðum Kilimanjaro gæti bætt úr vatnsskorti í Austur-Afríku

340776-kilimanjaro-160Brýnt er að endurheimta skóga í hlíðum Kilimanjaro til að bæta vatnsbúskap svæðisins, að því er fram kemur í skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í dag á fjallaráðstefnunni World Mountain Forum í Uganda. Á síðustu 40 árum hafa um 13.000 hektarar af skóglendi fjallsins eyðst vegna loftslagsbreytinga, m.a. í skógareldum, en áætlað er að þessir skógar hafi verið uppspretta drykkjarvatns fyrir milljón manns. Endurheimt skógarins bætir ekki aðeins vatnsstöðu og ræktunarmöguleika, heldur myndi hún einnig auðvelda uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og styðja við ferðaþjónustu sem er gríðarlega mikilvæg fyrir hagkerfi nærliggjandi svæða.
(Sjá fréttasíðu Sameinuðu þjóðanna í dag).

Hröð uppbygging vatnsaflsvirkjana

hydropower_boomOrkuframleiðsla vatnsaflsvirkjana í heiminum mun tvöfaldast á þessum áratug ef marka má niðurstöður sem kynntar voru á ráðstefnunni Global Challenges: Achieving Sustainability sem Kaupmannahafnarháskóli stóð fyrir á dögunum. Þessi uppbygging, sem aðallega mun verða í þróunarríkjum og í löndum með vaxandi hagkerfi, mun hafa í för með sér að um 20% af óheftum ám heimsins verði virkjuð. Nýting vatnsafls er mikilvægur liður í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis en getur jafnframt ógnað líffræðilegri fjölbreytni með skiptingu búsvæða og breytingum í setlögum. Vísindamenn við Laibniz-stofnunina um vistfræði ferskvatns (IGB) hafa þróað gagnagrunn til að aðstoða ríki við að meta mögulegar staðsetningar vatnsaflsvirkjana með það í huga að draga úr áhrifum á líffríkið.
(Sjá frétt Science Daily 24. október).