Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).