Kínversk stórborg rafvæðir allan strætóflotann

Borgaryfirvöld í Shenzhen í Kína hafa lokið við að rafvæða allan strætisvagnaflota borgarinnar, samtals 16.359 vagna, en ákvörðun um rafvæðingu var tekin árið 2011. Strætisvagnarnir í Shenzhen eru þrefalt fleiri en í New York, en samtals þjónar flotinn um 12 milljón manna byggð. Til að gera þessi orkuskipti möguleg hafa verið settar upp rúmlega 300 hleðslustöðvar fyrir strætisvagna í borginni, þar sem hægt er að fullhlaða rafhlöður vagnanna á 2 klst. Auk þess hafa verið settir upp 8.000 nýir ljósastaurar sem jafnframt gegna hlutverki hleðslustöðva fyrir bæði fólksbíla og strætisvagna. Með orkuskiptunum sparast um 345.000 tonn af dísilolíu á ári og losun koltvísýrings minnkar um 1,35 milljónir tonna. Borgaryfirvöld vinna nú að því að rafvæða alla leigubíla í borginni, en þeir eru um 17.000 talsins. Nú þegar eru 12.518 þeirra rafknúnir og standa vonir til að þessu verkefni verði lokið í síðasta lagi árið 2020.
(Sjá frétt á umhverfisfréttasíðu Yale-háskólans 3. janúar).

Rafknúið rúgbrauð á markað 2022

Bílaframleiðandinn Volkswagen tilkynnti sl. laugardag að rafknúið „rúgbrauð“ verði sett á markað árið 2022, en margir hafa saknað þessa VW-sendiferðabíls sem oft er tengdur 68-kynslóðinni í hugum fólks. Hugmyndabíll af þessu tagi var sýndur á bílasýningunni í Detroit fyrr á þessu ári, en ákvörðun um framleiðslu lá ekki fyrir fyrr en á laugardaginn. Ákvörðunin var kynnt á samkomu í Monterey í Kaliforníu, en þar stóð vagga rúgbrauðsins og hippamenningarinnar að margra mati. Ekki liggja fyrir nákvæmar tækniupplýsingar um nýja rúgbrauðið, en hugmyndabíllinn sem kynntur var í Detroit var með 111 kwst rafhlöðu sem á að duga fyrir rúmlega 400 km akstur.
(Sjá frétt Business Insider í gær).

Volvo og Siemens byggja upp rafknúnar almenningssamgöngur

buss_volvo_160Stórfyrirtækin Volvo og Siemens hafa tekið upp samstarf á heimsvísu til að stuðla að rafvæðingu almenningssamgangna í borgum. Samkomulag fyrirtækjanna snýst um heildstæðar lausnir, þar sem Volvo sér um framleiðslu og sölu rafstrætisvagna og tvinnvagna en Siemens þróar og setur upp hraðhleðslustöðvar þar sem hægt verður að hlaða vagnana á aðeins 6 mínútum. Fyrirtækin sjá mikil sóknarfæri í samstarfinu, enda sé hagkvæmt fyrir yfirvöld að innviðir séu staðlaðir og að sömu aðilar komi að þróun strætisvagna og uppsetningu innviða. Borgaryfirvöld í Hamborg í Þýskalandi hafa nú þegar keypt þrjá tvinnvagna og fjórar hleðslustöðvar frá Volvo og Siemens og á næstunni verða sett upp rafvagnakerfi í Stokkhólmi og Gautaborg. Samtals hefur Volvo selt um 5.000 tvinn- og rafstrætisvagna síðan 2009.
(Sjá frétt á heimasíðu Siemens 29. janúar).