Metframleiðsla á sólarorku á tímum Coronaveirunnar

Í fyrrihluta síðustu viku var 40% af raforkuþörf Þjóðverja mætt með sólarorku og hefur þetta hlutfall aldrei verið hærra. Met á þessu sviði voru einnig slegin á Spáni og í Bretlandi. Í síðastnefnda landinu hafa kol ekki verið notuð til raforkuframleiðslu síðustu tvær vikurnar. Ein af ástæðunum fyrir þessum uppgangi í sólarorkuframleiðslunni er sú að nú er loftmengun í Evrópu mun minni en venjulega vegna lítillar umferðar á tímum Coronaveirunnar. Sem dæmi um það má nefna að styrkur köfnunarefnisoxíða í andrúmslofti í Bretlandi er nú um 25% lægri en að meðaltali. Hagstætt veðurfar kemur einnig við sögu, en upp á síðkastið hefur verið fremur kalt og sólríkt í Evrópu. Við slíkar aðstæður ná sólarskildir mestum afköstum.
(Sjá frétt ENN 24. apríl sl.).

Venjulegur dísilbíll mengar meira en trukkur

5227-160x96Nýir dísildrifnir fólksbílar losa um tífalt meira af köfnunarefnisoxíðum (NOx) út í andrúmsloftið fyrir hvern lítra eldsneytis en nýir flutningabílar og rútur, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaráðsins um hreina flutninga (International Council on Clean Transportation (ICCT)). Þetta skýrist af því að beitt er mun strangari aðferðum við mælingar á mengun frá stórum ökutækjum en fólksbílum. Mengun frá fólksbílum er mæld í frumgerðum á rannsóknarstofu en við mælingar á trukkum eru notuð færanleg mælitæki við raunverulegar aðstæður. Trukkar sem prófaðir voru í Þýskalandi og Finnlandi reyndust losa um 210 mg af NOx á kílómetra, en losun frá nýjum fólksbílum var um 500 mg/km. Þetta jafngildir tíföldum mun á hvern lítra þegar tekið hefur verið tillit til eldsneytisnotkunar bílanna. Þessar niðurstöður sýna að bílaframleiðendur ráða yfir tækninni sem þarf til að draga úr mengun en hafa látið hjá líða að nota hana. Áform eru uppi um að herða reglur um mengunarmælingar á fólksbílum í framhaldi af „dieselgate“-hneykslinu þar sem Volkswagen var í aðalhlutverki.
(Sjá frétt The Guardian í dag).

Mengunarsíur í strætisvagna bæta loftgæði í Kaupmannahöfn

busserLoftmengun á götum Kaupmannahafnar hefur minnkað verulega eftir að nýjum úblásturssíum var komið fyrir í 300 strætisvögnum þar í borg. Síurnar minnka mengun í útblæstri um 95% og munar þar mestu um samdrátt í útblæstri köfnunarefnisoxíða (NOx) og svifryks sem eru taldar vera meðal helstu orsaka krabbameins og öndunarfærasjúkdóma í borginni. Þessi samdráttur í mengun samsvarar því að 15-20% af mest mengandi ökutækjum borgarinnar væru tekin úr umferð. Verkefnið er hluti af samstarfi Kaupmannahafnarborgar, sveitarfélagsins Fredriksberg, flutningafyrirtækisins Movia og Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen).
(Sjá frétt Miljøstyrelsen 29. febrúar).

Rafbílar gætu dregið verulega úr innflutningi eldsneytis

The-BMW-i3-is-representat-160Rafbílavæðing Bretlands gæti þýtt um 40% samdrátt í innflutningi eldsneytis til ársins 2030 á sama tíma og bílstjórar myndu spara um 13 milljarða sterlingspunda (um 2.700 milljarða ísl. kr.) samkvæmt hagrannsóknum Háskólans í Cambridge. Jafnframt myndi þetta þýða um 47% samdrátt í losun koltvísýrings, auk mikils samdráttar í útblæstri köfnunarefnisoxíðs og svifryks, sem gæti einn og sér sparað heilbrigðiskerfinu milljarð punda. Í rannsókninni er gert ráð fyrir að um 6 milljónir rafbíla verði á götum Bretlands árið 2030, en þróunin veltur þó á því að aukin áhersla verði lögð á uppbyggingu innviða. Þétt og öruggt net hleðslustöðva dregur verulega úr drægnikvíða (e. range anxiety) sem er ein helsta ástæða þess að almenningur hikar við að breyta yfir í rafbíla. Á sama tíma og rafbílavæðing getur dregið verulega úr kostnaði vegna öndunarfærasjúkdóma myndi hún skapa 7.000-19.000 ný störf og verg þjóðarframleiðsla myndi aukast vegna minni innflutnings olíu.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Dísilreykur gæti truflað býflugur

beeEfni í dísilreyk geta torveldað býflugum að greina blómalykt og þannig haft neikvæð áhrif á frævun plantna og þar með á fæðuöryggi jarðarbúa, ef marka má niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna við háskólann í Southampton. Svo virðist sem köfnunarefnisoxíð (NOx) í reyknum eyði tileknum lyktarefnum þannig að þau verði ekki lengur merkjanleg. Áhrifin eru því væntanlega ekki bundin við dísilreyk, heldur má gera ráð fyrir að sama gildi um reyk frá annarri brennslu. Rannsóknin sem um ræðir var gerð á tilraunastofu, þannig að eftir er að sýna fram á að hið sama gildi úti í náttúrunni.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).