Ódýrt að koma í veg fyrir heimsfaraldra

Kostnaðurinn við að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra er aðeins örlítið brot af kostnaðinum sem fylgir slíkum faraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPBES (Milliríkjanefndar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa). Samkvæmt skýrslunni eru að öllum líkindum til meira en 500.000 veirutegundir í dýrum sem gætu valdið sjúkdómum í mönnum. Ef ekkert verði að gert muni heimsfaraldrar af völdum slíkra veira verða tíðari í náinni framtíð, dreifast hraðar, valda meira tjóni og orsaka fleiri dauðsföll en Covid-19. Ráðast þurfi að rót vandans með því að hætta að eyða skógum til að rýma fyrir framleiðslu á kjöti, pálmaolíu, málmum og öðru slíku fyrir ríkustu þjóðir heims. Þetta kalli á alþjóðlegt eftirlit, skattlagningu og endalok ríkisstuðnings við framkvæmdir sem skerða villta náttúru.
(Sjá frétt The Guardian 29. október).

Græn útileiksvæði styrkja ónæmiskerfið

Leikskólabörn sem leika sér á náttúrulegum leiksvæðum með fjölbreyttum gróðri hafa sterkara ónæmiskerfi en börn sem leika sér í sandkössum og á malarlóðum. Með því að gera leiksvæðin náttúrulegri er meira að segja hægt að styrkja ónæmiskerfi barnanna umtalsvert á aðeins fjórum vikum. Þetta er niðurstaða rannsóknar finnskra vísindamanna sem sagt var frá í tímaritinu Science Advances í fyrradag. Eftir 28 daga höfðu náttúrusvæðabörnin þriðjungi fjölbreyttari örverur á húðinni en sandkassabörnin og munurinn á örveruflórunni í þörmum barnanna var marktækur. Þá sýndu blóðprufur jákvæðar breytingar í mælingum á mörgum próteinum og frumum sem tengjast ónæmiskerfinu, þ.m.t. T-frumum. Jákvæð áhrif náttúrulegu svæðanna eru talin liggja í því að þar eru börnin í snertingu við mun fjölbreyttara lífríki, sem er lykillinn að styrkingu ónæmiskerfisins. Þetta getur hugsanlega skipt máli til að fyrirbyggja sjálfsofnæmissjúkdóma á borð við astma, excem, sykursýki 1, MS og bólgusjúkdóma í meltingarfærum (IBD), en tíðni þessara sjúkdóma hefur vaxið hratt á Vesturlöndum á síðustu árum.
(Sjá frétt The Guardian 14. október).

Vísbendingar um tengsl loftmengunar við Alzheimer, Parkinson og MND

Vísindamenn við Háskólann í Lancaster hafa sýnt fram á tengsl loftmengunar við hrörnunarsjúkdómana Alzheimer, Parkinson og MND. Málmríkar nanóagnir frá umferð og merki um forstig sjúkdómanna fundust í heilum ungmenna frá Mexíkóborg sem búið höfðu við mikla loftmengun, en hvorki agnirnar né sjúkdómsmerkin fundust í heilum ungmenna frá minna menguðum svæðum. Rannsóknin náði til samtals 186 ungmenna á aldrinum 11 mánaða til 27 ára, sem öll höfðu látist af orsökum sem ekki tengdust efni rannsóknarinnar. Merki um forstig sjúkdómanna fundust á öllu aldursbilinu.
(Sjá frétt Science Daily 6. október).

Bresk fyrirtæki og samtök þrýsta á stjórnvöld að móta mínuslosunarstefnu

Bresku bændasamtökin (NFU), Heathrow flugvöllur og fleiri aðilar hafa tekið höndum saman um að þrýsta á ríkisstjórn Bretlands að móta skýra stefnu um föngun kolefnis og aðrar aðgerðir til að ná fram neikvæðri losun gróðurhúsalofttegunda. Hópurinn bendir á að móta þurfi slíka stefnu strax til að tími gefist til að þróa tækni sem beita má í þessu skyni, með sérstakri áherslu á þær atvinnugreinar þar sem losun er mest. Skjót viðbrögð í þessa átt séu forsenda þess að Bretland geti náð markmiði sínu um kolefnishlutleysi. Góð viðleitni til að draga úr losun frá flugi, stóriðju, landbúnaði o.s.frv. muni ekki duga ein og sér, og því séu mínuslosunarverkefni óhjákvæmilegur hluti þeirra aðgerða sem grípa þurfi til. Um leið snúist málið um samkeppnishæfni Bretlands og virkjun tækifæra sem liggja í nýsköpun á þessu sviði.
(Sjá frétt Business Green 12. október).

Suður-Ástralía keyrð á 100% sólarorku í fyrsta sinn

Síðastliðinn sunnudag var öll raforka sem notuð var í Suður-Ástralíu framleidd með sólarorku og hægt var að selja umframorku til Viktoríufylkis. Suður-Ástralía hefur verið leiðandi í nýtingu sólarorku, en þetta er í fyrsta sinn sem framleiðslan dugar til að sjá öllu fylkinu fyrir orku í heilan dag. Suður-Ástralía hefur einnig verið leiðandi í þróun rafgeyma sem taka við orku þegar framboð er meira en eftirspurn og gefa hana frá sér aftur þegar dæmið snýst við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Umhverfisáhrif tilgreind á kvittuninni

Sænski fataframleiðandinn Asket byrjaði á dögunum að birta upplýsingar um umhverfisáhrif fatnaðar á kvittunum sem fylgja vörunni til kaupenda. Á kvittununum má sjá loftslagsáhrif, vatnsnotkun og orkunotkun hvers þreps í framleiðslu vörunnar, en þessar upplýsingar byggja á lífsferilsgreiningum (LCA) sem rannsóknarfyrirtækið Rise hefur gert fyrir Asket. Til að byrja með fylgja kvittanir af þessu tagi fjórum mest seldu flíkum fyrirtækisins, en um mitt næsta ár verða allar vörur komnar inn í þetta kerfi. Með þessu framtaki vill Asket auka meðvitund neytenda um áhrif vörunnar, þannig að fólk fari að kaupa minna og nota fötin sín lengur.
(Sjá frétt tískutímaritsins Habit 24. september).

Nýtt ensím sem brýtur niður plast á nokkrum dögum

Vísindamenn við háskólann í Portsmouth í Englandi hafa búið til nýtt ensím sem getur brotið niður plastflöskur á nokkrum dögum. Þetta var gert með því að tengja saman tvö ensím úr bakteríu sem japanskir vísindamenn uppgötvuðu árið 2016. Þessi baktería nærðist á plasti og gat brotið það niður á u.þ.b. 6 vikum. Með því að tengja þessi tvö ensím saman fer niðurbrotstími pólýetýlenplasts (PET) hins vegar niður í nokkra daga. Vísindamennirnir í Portsmouth gera sér vonir um að hægt verði að nýta uppgötvun þeirra í endurvinnsluiðnaði innan tveggja ára og benda jafnframt á að þetta sé enn eitt dæmið um mikilvægi þess að vinna með náttúrunni að lausnum á vandamálum samtímans.
(Sjá frétt PlanetArk 7. október).

Örsmá vindorkuver á teikniborðinu

Kínverskir vísindamenn hafa þróað búnað sem getur breytt vindorku í rafmagn, jafnvel þótt vindhraðinn sé ekki nema 1,6 m/sek. Um er að ræða hylki með tveimur plastborðum innan í, sem flaksast til í vindinum. Slík hylki gætu jafnvel framleitt rafmagn úr loftstraumum sem myndast þegar göngufólk sveiflar höndunum. Vonir standa til að hægt verði að nota búnað af þessu tagi til að knýja öryggismyndavélar, skynjara og jafnvel veðurstöðvar á afskekktum stöðum.
(Sjá frétt The Guardian 23. september).

Bann við sölu jarðeldsneytisbíla í Bretlandi 2030

Gert er ráð fyrir að breska ríkisstjórnin kynni á næstu vikum bann við sölu nýrra bensín- og dísilbíla frá og með árinu 2030. Samkvæmt núverandi stefnu tekur slíkt bann gildi í Bretlandi 2040, en vilji er til að flýta banninu um 10 ár til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, auka loftgæði í borgum og búa til ný tækifæri fyrir breskan bílaiðnað. Þýskaland, Írland og Holland (auk Íslands) stefna öll að banni frá og með 2030 og í Noregi á slíkt bann að taka gildi árið 2025.
(Sjá frétt The Guardian 21. september).

Stórátak í kolefnisbindingu í Noregi

Í fyrradag kynnti ríkisstjórn Noregs tillögu sína til Stórþingsins um stórátak í föngun, flutningi og bindingu koldíoxíðs. Verkefnið er margþætt, en það felst m.a. í söfnun koldíoxíðs frá sementsverksmiðju í Brevik og frá sorporkuveri í Osló, svo og í stuðningi við svonefnt Norðurljósaverkefni, sem unnið er í samstarfi fyrirtækjanna Equinor, Shell og Total. Norðurljósaverkefnið snýst um flutning fljótandi koldíoxíðs frá söfnunarstöðum til móttökustöðvar í Øygarden, en þaðan verður vökvanum dælt niður í hólf undir hafsbotni. Þetta nýja átak, sem fengið hefur nafnið Langskip, er sagt vera stærsta loftslagsverkefni norsks atvinnulífs frá upphafi. Því er ekki aðeins ætlað að auðvelda Norðmönnum að uppfylla skuldbindingar sínar gagnvart Parísarsáttmálanum, heldur mun það einnig skapa allmörg ný störf. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður um 25 milljarðar norskra króna (um 370 milljarðar ISK), þar af 17 milljarðar í stofnkostnað og 8 milljarðar í rekstur fyrstu 10 árin. Gert er ráð fyrir að norska ríkið beri um 67% af kostnaðinum.
(Sjá fréttatilkynningu norsku ríkisstjórnarinnar í fyrradag).