Ódýrt að koma í veg fyrir heimsfaraldra

Kostnaðurinn við að koma í veg fyrir nýja heimsfaraldra er aðeins örlítið brot af kostnaðinum sem fylgir slíkum faraldri. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IPBES (Milliríkjanefndar um líffræðilega fjölbreytni og þjónustu vistkerfa). Samkvæmt skýrslunni eru að öllum líkindum til meira en 500.000 veirutegundir í dýrum sem gætu valdið sjúkdómum í mönnum. Ef ekkert verði að gert muni heimsfaraldrar af völdum slíkra veira verða tíðari í náinni framtíð, dreifast hraðar, valda meira tjóni og orsaka fleiri dauðsföll en Covid-19. Ráðast þurfi að rót vandans með því að hætta að eyða skógum til að rýma fyrir framleiðslu á kjöti, pálmaolíu, málmum og öðru slíku fyrir ríkustu þjóðir heims. Þetta kalli á alþjóðlegt eftirlit, skattlagningu og endalok ríkisstuðnings við framkvæmdir sem skerða villta náttúru.
(Sjá frétt The Guardian 29. október).

Hlýnun sjávar eykur líkur á farsóttum í sjávardýrum

lobsterHækkandi hitastig sjávar eykur líkur á smitsjúkdómum í sjávarlífverum og stuðlar jafnvel að hruni stofna, ef marka má tvær nýjar rannsóknir Cornell Háskólans í Bandaríkjunum. Í annarri rannsókninni voru áhrif hlýnunar sjávar á krossfiska við vesturströnd Bandaríkjanna skoðuð og kom þar fram að hægt var að rekja dauða um 90% krossfiskastofna á svæðinu frá Mexíkó að Alaska til hitabylgju á árunum 2013-2014. Í hinni rannsókninni kom fram að hitastig getur haft áhrif á farsóttir í stofnum skjaldbaka, kórala, humars, skelfisks og marhálms. Þannig er Ameríkuhumar mjög viðkvæmur fyrir breytingum á hitastigi, en humarinn er mikilvægur fyrir efnahag Maine-ríkis nyrst á austurströnd Bandaríkjanna. Erfitt er að koma í veg fyrir smit vegna hækkandi hitastigs, en höfundar rannsóknanna benda á mikilvægi þess að flytja ekki lífverur milli svæða, auk þess sem fylgjast þarf með sveiflum í hitastigi til að geta séð hitabylgjur fyrir.
(Sjá frétt Science Daily 16. febrúar).

Manngerð efni ógna heilsu jarðarbúa

67960Manngerð efni í neytendavörum eiga sinn þátt í mikilli fjölgun sjúkdómstilfella í börnum. Undir þetta falla m.a. vansköpun við fæðingu, hvítblæði, heilaæxli og jafnvel einhverfa. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir stofnanir Sameinuðu þjóðanna og birt var í gær. Í skýrslunni er sjónum beint að hormónaraskandi efnum, svo sem þalötum og BPA. Þar kemur fram að gríðarlegur fjöldi slíkra efna sé í notkun, án þess að menn hafi nokkra yfirsýn yfir áhrif þeirra á umhverfi og heilsu, hvað þá yfir samverkandi áhrif þar sem um slíkt er að ræða. Þessi áhrif kunni að vera verulega vanmetin. Auk fyrrnefndra áhrifa á heilsufar barna geti þessi efni átt sinn þátt í útdauða einstakra dýrategunda, minnkandi sæðisgæðum karlmanna, ófrjósemi kvenna, krabbameini í brjóstum og blöðruhálskirtli, sykursýki, astma, offitu, lesblindu, Alzheimer og Parkinson, svo dæmi séu tekin. Hér sé um að ræða hnattræna ógn sem bregðast þurfi við.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).