Stórfyrirtækið Walmart hefur nú opnað „sjálfbærniverslun“ í netverslun sinni þar sem neytendum eru gefnar upplýsingar um frammistöðu birgja á sviði umhverfis- og samfélagsmála með tilliti til lífsferils vöru. Netverslunin byggir á sjálfbærnistuðli Walmart sem þróaður var af The Sustainability Consortium (TSC), en þetta er í fyrsta sinn sem neytendur fá aðgang að þeim upplýsingum sem þar er að finna. Fyrirmyndarfyrirtæki og birgjar eru sérstaklega merkt á heimasíðunni sem umhverfisvænir kostir, en á þessu stigi nær einkunnagjöfin einungis til fyrirtækja en ekki einstakrar vöru. Walmart telur að upplýsingamiðlun af þessu tagi gefi tóninn fyrir framtíðina og vonast til að þetta hjálpi neytendum til að taka upplýstar ákvarðanir.
(Sjá frétt EDIE 25. febrúar).
Greinasafn fyrir flokkinn: Samfélagsleg ábyrgð
Kínversk stjórnvöld hvetja til málaferla gegn mengunarvöldum
Kínversk stjórnvöld kynntu í síðustu viku löggjöf sem gefur frjálsum félagasamtökum, hópum náttúruverndarsinna og öðrum hópum hagsmunaaðila aukin réttindi til að lögsækja mengunarvalda. Hópar sem standa í málaferlum sem miða að því að draga úr mengun í Kína munu m.a. fá afslátt af málskostnaði, auk þess sem félagasamtök fá aukið svigrúm til að höfða mál gegn fyrirtækjum án tillits til þess hvar fyrirtækin eru skráð. Nýlegar rannsóknir benda til að í dag séu um 2/3 af jarðvegi í Kína mengaðir, svo og um 60% af öllu grunnvatni. Þá er Kína með hæstu losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum. Stjórnvöld lýstu á síðasta ári yfir stríði gegn mengun og er aðgerðin liður í þeirri baráttu.
(Sjá frétt the Guardian 7. janúar).
Fyrsta „samfélagsbúðin“ opnuð í London
Í vikunni var fyrsta „samfélagsbúðin“ opnuð í London, en þar er um að ræða verslun sem selur afgangsmat frá verslunum og heildsölum með 70% afslætti til fólks sem ekki á til hnífs og skeiðar og er háð fjárhagsaðstoð. Verkefnið hefur verið nefnt Community Shop en að því standa nokkrar matvælakeðjur, m.a. með stuðningi Boris Johnson, borgarstjóra í London. Tilgangurinn er að draga úr matarsóun í birgjakeðjunni og aðstoða fólk sem býr við fátæktarmörk. Einstaklingar sem uppfylla tiltekin skilyrði geta skráð sig í verkefnið og öðlast þannig rétt til að kaupa í matinn í verslunum þess. Verkefnið er sérstaklega ætlað fólki í atvinnuleit á meðan það kemur undir sig fótunum og er stefnt að því að opna 20 slíkar verslanir á Bretlandi á næstu árum. Talið er að um 3,5 milljónum tonna af mat sé hent árlega í Bretlandi áður en hann kemst í innkaupakörfur neytenda. Ástæður þessa má oftast rekja til rangra merkinga eða skemmdra umbúða.
(Sjá frétt EDIE 16. desember).
Nemendur verðlaunaðir fyrir matarsóunarverkefni
Umhverfisstofnun Sameinuðu Þjóðanna (UNEP) verðlaunaði í dag þrjá nemendahópa fyrir framúrskarandi verkefni sem stuðluðu að því að draga úr matarsóun, en verðlaunin eru hluti af matarsóunarverkefni UNEP Think.Eat.Save. Verkefnin þrjú eru frá Frakklandi, Mexíkó og Bretlandi og snúa öll að því að minnka matarsóun í skólum, en áætlað er að í Bretlandi einu sé árlega hent um 123.000 tonnum af mat úr skólamötuneytum. Verkefnið What The Food fékk fyrstu verðlaun, en franskir nemendur unnu þar að uppsetningu á appi sem auðveldar nemendum að skipuleggja hádegismatinn sinn um leið og rekstraraðilum matsölustaða og mötuneyta er gert auðvelda fyrir að skipuleggja starf sitt. Mexíkóska verkefnið sem var í öðru sæti snerist um að auka vitund nemenda sem leifðu mat með því að gefa þeim færi á að rækta sitt eigið grænmeti á skólalóðinni. Í þriðja sæti var verkefnið Eat My Words en þar vann hópur nemenda að skapandi leiðum til að miðla upplýsingum um umsvif og áhrif matarsóunar til breskra nemenda. Um 470 skólar í 80 löndum tóku þátt í verkefninu.
(Sjá frétt UNEP í dag).
Sveitarfélög kalla eftir aukinni ábyrgð tyggjóframleiðanda
Samtök breskra sveitarfélaga (Local Government Association (LGA)) hafa skorað á tyggjóframleiðendur að taka þátt í hreinsunarkostnaði vegna tyggigúmmís á götum borga og bæja. Sveitarfélög í Bretlandi eyða árlega um 60 milljónum breskra punda (um 11 milljörðum ísl. kr.) í að hreinsa upp tyggigúmmi, enda er talið að í þéttbýliskjörnum megi á hverjum tíma finna um 25 tyggjóklessur á hvern lengdarmetra gangstéttar. Hvert tyggjó kostar neytandann um 3 bresk penní (um 6 ísl. kr.) en hins vegar kostar það yfirvöld um 1,5 pund (um 290 ísl. kr.) að hreinsa upp hverja klessu. Hingað til hafa tyggjóframleiðendur lagt nokkra áherslu á að hvetja fólk til að henda notuðu tyggjói í ruslatunnur, en hafa lítið sinnt um þátttöku í hreinsikostnaði. Venjulegt tyggjó brotnar alls ekki niður í náttúrunni og hefur LGA hvatt framleiðendur til að þróa tyggjó sem er umhverfisvænna að þessu leyti.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Mikil hætta stafar af Sellafield
Mikil hætta stafar af geymslu geislavirks úrgangs í opnum tönkum í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield í Bretlandi. Þetta er mat sérfræðings í kjarnorkuöryggi sem skoðað hefur myndir sem birtust í the Ecologist nýlega. Á myndunum sést að tankarnir eru afar illa farnir, sprungur eru komnar í steypuna og illgresi farið að vaxa í sprungunum. Komi leki að tönkunum er mikil hætta á að geislavirkt efni sleppi út í umhverfið og valdi langvarandi og víðtækri geislamengun. Tankarnir voru reistir á sjötta áratugnum, en talsmaður Sellafield segir að þeir verði hvorki fjarlægðir né lagfærðir á næstu áratugum, þrátt fyrir hættuna sem af þeim stafar. Fyrst þurfi að koma úrgangnum sem þar er í það horf að óhætt sé að færa hann.
(Sjá frétt the Guardian 29. október).
Whole Foods verðlaunar ábyrga ræktun
Verslunarkeðjan Whole Foods Market hefur tekið upp umhverfiseinkunn sem verðlaunar vörur sem framleiddar eru á ábyrgan hátt með áherslu á umhverfisvernd og lýðheilsu. Kerfið er þannig byggt upp að ferskir ávextir, grænmeti og blóm eru merkt með „gott“, „betra“ eða „best“ til að auðvelda neytendum að taka upplýstar ákvarðanir og til að umbuna þeim framleiðendum sem lengst ganga í umhverfisvernd og sjálfbærum landbúnaði. Fyrirtækið hefur jafnframt bannað notkun tiltekinna eiturefna í virðiskeðjunni. Við einkunnagjöfina er horft til notkunar varnarefna, velferðar starfsfólks, vatnsnotkunar, vatnsverndar, jarðvegsgæða, vistkerfa, líffræðilegrar fölbreytni, úrgangsmála, loftgæða, orkunotkunar og loftslags. Fyrirtækið hefur nú þegar merkt um 50% af þeim vörum sem í boði eru og vonast til að ná 100% í nánustu framtíð.
(Sjá frétt EDIE 17. október).
Enn fjárfestir Google í endurnýjanlegri orku
Google tilkynnti í dag að fyrirtækið muni leggja 145 milljónir bandaríkjadala (um 17 milljarða ísl. kr.) í nýtt 82 MW sólarorkuver í Kaliforníu, en þetta mun vera sautjánda fjárfesting fyrirtækisins í endurnýjanlegri orku frá árinu 2010. Um er að ræða uppsetningu á sólarrafhlöðum á um 300 hektara landsvæði í Kernsýslu þar sem áður var olíu- og gasvinnsla og mun verið geta séð um 10.000 heimilum í Kaliforníu fyrir raforku. Um 35% af allri orkunotkun Google er nú af endurnýjanlegum uppruna.
(Sjá frétt EDIE í dag).
Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu
Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).
Sjálfbærnistarfi sænskra skóverslana mjög áfátt
Enginn af fjórum stærstu skóverslunarkeðjunum í Svíþjóð vinnur markvisst að því að tryggja heilbrigt vinnuumhverfi og viðunandi laun í löndum þar sem skórnir eru framleiddir, að því er fram kemur í skýrslunni „Í sömu sporum“ sem sænsku samtökin Fair Trade Center (FTC) gáfu út á dögunum. Samtökin benda sérstaklega á að verslunarkeðjurnar láti hjá líða að fylgjast með aðferðum og vinnuumhverfi við sútun leðurs. Það ferli geti verið mjög skaðlegt bæði fyrir umhverfið og heilsu starfsmanna enda mikið notað af efnavörum í sútuninni. Það þykir furðu sæta að skóverslanirnar séu ekki komnar lengra í umhverfisstarfinu og þá sérstaklega í sjálfbærri stjórnun aðfangakeðjunnar, enda standa fyrirtæki í tískugeiranum í Svíþjóð sig almennt vel í þeim efnum. Verkefnisstjóri FTC segir málið ekki snúast um að sýna gott fordæmi heldur einfaldlega um að fylgja þeim alþjóðasamningum sem fyrirtækin segist vinna eftir.
(Sjá frétt á heimasíðu Fair Trade Center 26. ágúst).