Lindex framleiðir strigaskó úr gömlum gallabuxum

denim sneakersSænska verslunarkeðjan Lindex hefur hafið framleiðslu á strigaskóm úr gömlum gallabuxum sem skilað hefur verið í söfnunargáma Myrorna. Talsmaður Myrorna segir að samtökin taki þátt í verkefninu þar sem þeim finnist spennandi að finna nýja markaði og endurvinnslufarvegi fyrir notaðan fatnað, auk þess sem uppvinnsla (e. upcycling) textílefna feli í sér nýsköpun í handverki og meðferð textílúrgangs. Með uppvinnslu gallabuxnanna lengist líftími vörunnar og neyslumynstur breytist, sem aftur hefur í för með sér minna álag á umhverfið og minni auðlindanotkun. Myrorna safna nú um 21 tonni af textílúrgangi í Svíþjóð á degi hverjum og stefna að því að tvöfalda söfnunina á næstu tveimur árum. Lindex ætti því að hafa nægilegt hráefni í framleiðsluna.
(Sjá frétt á heimasíðu Myrorna 17. febrúar).

Sjálfbærnistarfi sænskra skóverslana mjög áfátt

skor_160Enginn af fjórum stærstu skóverslunarkeðjunum í Svíþjóð vinnur markvisst að því að tryggja heilbrigt vinnuumhverfi og viðunandi laun í löndum þar sem skórnir eru framleiddir, að því er fram kemur í skýrslunni „Í sömu sporum“ sem sænsku samtökin Fair Trade Center (FTC) gáfu út á dögunum. Samtökin benda sérstaklega á að verslunarkeðjurnar láti hjá líða að fylgjast með aðferðum og vinnuumhverfi við sútun leðurs. Það ferli geti verið mjög skaðlegt bæði fyrir umhverfið og heilsu starfsmanna enda mikið notað af efnavörum í sútuninni. Það þykir furðu sæta að skóverslanirnar séu ekki komnar lengra í umhverfisstarfinu og þá sérstaklega í sjálfbærri stjórnun aðfangakeðjunnar, enda standa fyrirtæki í tískugeiranum í Svíþjóð sig almennt vel í þeim efnum. Verkefnisstjóri FTC segir málið ekki snúast um að sýna gott fordæmi heldur einfaldlega um að fylgja þeim alþjóðasamningum sem fyrirtækin segist vinna eftir.
(Sjá frétt á heimasíðu Fair Trade Center 26. ágúst).

Adidashælar úr matarumbúðum

adidas skorHælstykki í Adidasskóm úr vor- og haustlínunni 2014 verða að hálfu úr endurunnum matarumbúðum úr plasti. Um er að ræða stykki sem sett er í sólann við hælinn til að veita stuðning og er venjulega úr hitadeigu gúmmíi og pólýstýren. Vegna hækkandi verðs þessara hráefna fór birginn Framas að leita að staðgengilsefnum og þá kom í ljós að mikill fjárhagslegur og umhverfislegur sparnaður felst í að nýta endurunnin pólýstýren efni. Framas framleiðir um 110 milljónir slíkra stykkja árlega og gerir ráð fyrir að með þessari nýju aðferð megi koma í veg fyrir urðun á um 1.500 tonnum af pólýstýreni á ári.
(Sjá frétt EDIE í gær).

Umhverfisvænstu fótboltaskórnir

Nike kynnti á dögunum fótboltaskóinn GS2, sem fyrirtækið segir vera þann umhverfisvænsta á markaðnum. Skórinn vega aðeins um 160 g og er að talsverðu leyti gerður úr endurunnu efni og endurnýjanlegu efni sem unnið er úr plöntum. Þannig er sólinn að hluta úr kristpálmafræjum (e. castor beans) og reimar o.fl. úr allt að 70% endurunnu efni. Engu er þó fórnað í gæðum að sögn framleiðandans.
(Sjá frétt EDIE 26. nóvember).

Þalöt og þungmálmar í plastsandölum

Margar tegundir plastsandala innihalda efni sem geta verið skaðleg umhverfi og heilsu. Í nýlegri könnun Sænska efnaeftirlitsins kom í ljós að 13 skópör af 30 innihéldu hættuleg efni á borð við þalöt, blý og kadmíum. Engar reglur eru í gildi um efnainnihald skótaus, en hætta er talin á að þalöt í skóm hafi skaðleg áhrif á heilsu fólks til lengri tíma litið, einkum þegar þau bætast við þalöt sem finnast í öðrum neytendavörum sem fólk umgengst daglega. Mest er þó hættan fyrir þá sem ganga berfættir í skónum og flýta þannig fyrir upptöku efnanna í líkamann. Þalöt geta truflað hormónastarfsemi og haft áhrif á frjósemi.
(Sjá frétt forbrugerkemi.dk 22. október).