Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).
Greinasafn fyrir merki: Símtæki
Vodafone gefur farsímum sjálfbærnieinkunn
Vodafone hefur nú tekið upp sjálfbærnieinkunn fyrir farsíma sem fyrirtækið selur. Með þessu vill fyrirtækið auðvelda viðskiptavinum að bera saman umhverfis- og samfélagsáhrif mismunandi símtækja. Farsímunum er gefin einkunn á bilinu 1-5 og er einkunnin sýnd utan á umbúðum nýrra síma. Við einkunnagjöfina er tekið tillit til hráefnisnotkunar, orkunotkunar, vatnsnotkunar, flutninga, eiginleika sem takmarka umhverfisáhrif við notkun og þess hversu einfalt er að endurvinna vöruna. Einkunnagjöfin var fyrst innleidd í Hollandi en er nú til staðar í níu löndum, m.a. í Bretlandi þar sem Vodafone kynnti þessa nýjung fyrir viðskiptamönnum sínum í síðasta mánuði.
(Sjá frétt Edie 30. maí).
Fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símarnir
Þýska símafyrirtækið Telekom Deutschland er þessa dagana að setja á markað fyrstu umhverfismerktu þráðlausu símana. Símtækin eru vottuð með þýska umhverfismerkinu Bláa englinum, en vottunin er m.a. staðfesting á því að tækin noti lítið rafmagn, að auðvelt sé að skipta um rafhlöður og auka þar með endinguna, að tækin innihaldi ekki skaðleg efni, að rafsegulsvið sé í lágmarki og að notandi geti sjálfur stillt sendistyrkinn, svo eitthvað sé nefnt.
(Sjá frétt á heimasíðu Bláa engilsins 1. mars).