Mikil hætta stafar af Sellafield

SellafieldMikil hætta stafar af geymslu geislavirks úrgangs í opnum tönkum í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield í Bretlandi. Þetta er mat sérfræðings í kjarnorkuöryggi sem skoðað hefur myndir sem birtust í the Ecologist nýlega. Á myndunum sést að tankarnir eru afar illa farnir, sprungur eru komnar í steypuna og illgresi farið að vaxa í sprungunum. Komi leki að tönkunum er mikil hætta á að geislavirkt efni sleppi út í umhverfið og valdi langvarandi og víðtækri geislamengun. Tankarnir voru reistir á sjötta áratugnum, en talsmaður Sellafield segir að þeir verði hvorki fjarlægðir né lagfærðir á næstu áratugum, þrátt fyrir hættuna sem af þeim stafar. Fyrst þurfi að koma úrgangnum sem þar er í það horf að óhætt sé að færa hann.
(Sjá frétt the Guardian 29. október).

Sjávarrof opnar leið fyrir geislavirkan úrgang út í hafið

Seascale-011Geislavirkur úrgangur úr urðunarstaðnum Grigg í grennd við kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield á vesturströnd Englands mun að öllum líkindum sleppa út í hafið á næstu öld. Ástæðan er hækkað sjávarborð sem mun leiða til svo mikils landbrots að úrgangurinn standi eftir óvarinn fyrir ágangi sjávar. Samtals er þarna um að ræða um milljón rúmmetra af geislavirkum úrgangi og geislavirkum hergögnum sem hafa fallið til á síðustu 55 árum. Umhverfisstofnun Bretlands (EA) viðurkennir að staðsetning urðunarstaðsins hafi verið mistök og að í dag yrði slíkri starfsemi tæplega valinn staður svo nálægt hafi. Áætlun rekstraraðila Grigg um að urða þarna 800.000 rúmmetra af geislavirkum úrgangi til viðbótar er nú til skoðunar hjá umhverfisstofnuninni. Þess má geta að helmingunartími geislavirks efnis getur hlaupið á þúsundum ára.
(Sjá frétt the Guardian 20. apríl).

Bresk yfirvöld kæra eigendur Sellafield

Yfirvöld í Bretlandi lögðu í gær fram 9 kærur á hendur eigendum kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Sellafield, en þeir eru sakaðir um að hafa urðað geislavirkan úrgang á svæðinu án tilskilinna leyfa. Ekki er búist við þungum refsingum vegna þessara mála, en kærurnar koma á afar óheppilegum tíma fyrir eigendur stöðvarinnar, sem sætt hafa mikill gagnrýni að undanförnu vegna lausataka í stjórnun og rekstri. Áætlað er að nauðsynlegar endurbætur á stöðinni í Sellafield myndu kosta um 67 milljarða sterlingspunda (jafnvirði tæplega 14.000 milljarða ísl. kr).
(Sjá frétt PlanetArk í gær).