Hættan á kjarnorkuslysum vanmetin

nuclear-dangerLíkurnar á kjarnorkuslysum á borð við þau sem urðu í Chernobyl í Úkraínu 1986 og í Fukushima í Japan 2011 eru vanmetnar að því er fram kemur í greinum sérfræðinga um áhættumat sem birtust nýlega í tímaritunum Energy Research & Social Science og Risk Analysis. Vissulega er tíðni kjarnorkuslysa á niðurleið en slysið sem verða eru þeim mun stærri. Höfundar greinanna telja meira en 50% líkur á að slys af svipaðri stærð og í Chernobyl og Fukushima verði einu sinni til tvisvar á öld og meira en 50% líkur á að slys á borð við það sem varð á Þriggjamílnaey í Bandaríkjunum 1979 verði á 10-20 ára fresti. Auk heldur sé aðferðum sem notaðar eru til að meta alvarleika og kostnað af kjarnorkuslysum áfátt. Þess má geta að heildartjón vegna slyssins í Chernobyl er nú metið á 259 milljarða dollara eða sem samsvarar tæplega 30 þúsund milljörðum ísl. kr.
(Sjá frétt Science Daily 19. september).

Mikil hætta stafar af Sellafield

SellafieldMikil hætta stafar af geymslu geislavirks úrgangs í opnum tönkum í kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Sellafield í Bretlandi. Þetta er mat sérfræðings í kjarnorkuöryggi sem skoðað hefur myndir sem birtust í the Ecologist nýlega. Á myndunum sést að tankarnir eru afar illa farnir, sprungur eru komnar í steypuna og illgresi farið að vaxa í sprungunum. Komi leki að tönkunum er mikil hætta á að geislavirkt efni sleppi út í umhverfið og valdi langvarandi og víðtækri geislamengun. Tankarnir voru reistir á sjötta áratugnum, en talsmaður Sellafield segir að þeir verði hvorki fjarlægðir né lagfærðir á næstu áratugum, þrátt fyrir hættuna sem af þeim stafar. Fyrst þurfi að koma úrgangnum sem þar er í það horf að óhætt sé að færa hann.
(Sjá frétt the Guardian 29. október).

Kjarnasamruni í sjónmáli?

The magnetic coils inside the compact fusion (CF) experiment are critical to plasma containment, as pictured in this undated handout photoKjarnasamruni til raforkuframleiðslu gæti orðið að veruleika innan 10 ára að mati sérfræðinga bandaríska fyrirtækisins Lockheed Martin. Fyrirtækið hefur þróað litla samrunaofna (um 6 fermetra) með 100 MW uppsett afl, sem mögulega gætu verið komnir í framleiðslu og notkun eftir um 10 ár. Framleiðsla rafmagns með kjarnasamruna er bæði öruggari og skilvirkari en framleiðsla með kjarnaklofnun eins og gert er í kjarnorkuverum samtímans, auk þess sem geislavirkur úrgangur frá vinnslunni er hverfandi. Notast er við tvívetni og þrívetni í kjarnasamrunanum, en fyrirtækið telur að í framtíðinni verði hægt að notast við efni sem framleiða engan geislavirkan úrgang.
(Sjá frétt Planet Ark í dag).

Sjávarrof opnar leið fyrir geislavirkan úrgang út í hafið

Seascale-011Geislavirkur úrgangur úr urðunarstaðnum Grigg í grennd við kjarnorkuendurvinnslustöðina í Sellafield á vesturströnd Englands mun að öllum líkindum sleppa út í hafið á næstu öld. Ástæðan er hækkað sjávarborð sem mun leiða til svo mikils landbrots að úrgangurinn standi eftir óvarinn fyrir ágangi sjávar. Samtals er þarna um að ræða um milljón rúmmetra af geislavirkum úrgangi og geislavirkum hergögnum sem hafa fallið til á síðustu 55 árum. Umhverfisstofnun Bretlands (EA) viðurkennir að staðsetning urðunarstaðsins hafi verið mistök og að í dag yrði slíkri starfsemi tæplega valinn staður svo nálægt hafi. Áætlun rekstraraðila Grigg um að urða þarna 800.000 rúmmetra af geislavirkum úrgangi til viðbótar er nú til skoðunar hjá umhverfisstofnuninni. Þess má geta að helmingunartími geislavirks efnis getur hlaupið á þúsundum ára.
(Sjá frétt the Guardian 20. apríl).