Enginn af fjórum stærstu skóverslunarkeðjunum í Svíþjóð vinnur markvisst að því að tryggja heilbrigt vinnuumhverfi og viðunandi laun í löndum þar sem skórnir eru framleiddir, að því er fram kemur í skýrslunni „Í sömu sporum“ sem sænsku samtökin Fair Trade Center (FTC) gáfu út á dögunum. Samtökin benda sérstaklega á að verslunarkeðjurnar láti hjá líða að fylgjast með aðferðum og vinnuumhverfi við sútun leðurs. Það ferli geti verið mjög skaðlegt bæði fyrir umhverfið og heilsu starfsmanna enda mikið notað af efnavörum í sútuninni. Það þykir furðu sæta að skóverslanirnar séu ekki komnar lengra í umhverfisstarfinu og þá sérstaklega í sjálfbærri stjórnun aðfangakeðjunnar, enda standa fyrirtæki í tískugeiranum í Svíþjóð sig almennt vel í þeim efnum. Verkefnisstjóri FTC segir málið ekki snúast um að sýna gott fordæmi heldur einfaldlega um að fylgja þeim alþjóðasamningum sem fyrirtækin segist vinna eftir.
(Sjá frétt á heimasíðu Fair Trade Center 26. ágúst).