Sveitarfélög kalla eftir aukinni ábyrgð tyggjóframleiðanda

tyggjoSamtök breskra sveitarfélaga (Local Government Association (LGA)) hafa skorað á tyggjóframleiðendur að taka þátt í hreinsunarkostnaði vegna tyggigúmmís á götum borga og bæja. Sveitarfélög í Bretlandi eyða árlega um 60 milljónum breskra punda (um 11 milljörðum ísl. kr.) í að hreinsa upp tyggigúmmi, enda er talið að í þéttbýliskjörnum megi á hverjum tíma finna um 25 tyggjóklessur á hvern lengdarmetra gangstéttar. Hvert tyggjó kostar neytandann um 3 bresk penní (um 6 ísl. kr.) en hins vegar kostar það yfirvöld um 1,5 pund (um 290 ísl. kr.) að hreinsa upp hverja klessu. Hingað til hafa tyggjóframleiðendur lagt nokkra áherslu á að hvetja fólk til að henda notuðu tyggjói í ruslatunnur, en hafa lítið sinnt um þátttöku í hreinsikostnaði. Venjulegt tyggjó brotnar alls ekki niður í náttúrunni og hefur LGA hvatt framleiðendur til að þróa tyggjó sem er umhverfisvænna að þessu leyti.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Tyggjó með hormónaraskandi efnum

tyggegummi_med_bhaEin af hverjum þremur tegundum tyggigúmmís á dönskum markaði inniheldur hormónaraskandi efni samkvæmt athugun dönsku neytendasamtakanna Tænk. Átján af 62 tegundum sem kannaðar voru reyndust innihalda efnið bútýlhýdroxýanisól (BHA) sem notað er sem rotvarnarefni í ýmsar matvörur, en er jafnframt á lista ESB yfir efni sem trufla hormónastarfsemi líkamans. Anja Philip, formaður neytendasamtakanna, segir ólíklegt að efnið hafi mikil áhrif í því magni sem finna má í tyggjói. Hins vegar geti það stuðlað að kokteiláhrifum í samspili við önnur efni. BHA er talið geta haft áhrif á frjósemi auk þess sem efnið eykur líkurnar á krabbameini í eistum.
(Sjá frétt Politiken í gær og tyggjólista Tænk).