Jákvæð þróun í raftækjaframleiðslu

ewaste_160Raftækjaframleiðendur sýna aukinn vilja til að minnka umhverfis- og samfélagsáhrif framleiðslu og notkunar raftækja samkvæmt nýrri skýrslu Greenpeace sem ber heitið Green Gadgets: Designing the Future. Þannig hafa mörg fyrirtæki heitið að draga úr eða hætta notkun skaðlegra PVC-efna og brómaðra eldvarnarefna (BFR). Þessi efni brotna ekki niður og hafa því neikvæð umhverfis- og heilsuáhrif við meðhöndlun raftækjaúrgangs, en eitraður raftækjaúrgangur er talinn muni nema um 65 milljónum tonna árið 2017. Þrátt fyrir aukna umhverfisáherslur í raftækjaframleiðslu telur Greenpeace að fyrirtækin geti gert betur með því að beita sér fyrir banni á notkun slíkra efna, leggja áherslu á sjálfbæra stjórnun birgjakeðja og auka hlutfall endurnýjanlegrar orku í framleiðslunni.
(Sjá frétt Greenpeace 3. september).

Brýnt að stórbæta nýtingu málma

Metals UNEPGera þarf stórátak í bættri nýtingu og endurvinnslu til að komast hjá alvarlegum skorti á sjaldgæfum málmum, en búast má við að eftirspurn eftir málmum eigi jafnvel eftir að tífaldast. Sérstaklega er mikilvægt að hönnun raf- og rafeindatækja auðveldi endurnotkun og endurvinnslu einstakra íhluta, en í slíkum tækjum er mikið magn dýrmætra málma í örlitlu magni. Þannig getur venjulegur farsími innihaldið yfir 40 tegundir málma, allt frá algengum málmum á borð við kopar upp í vandfengna málma á borð við gull og palladíum. Árlega fleygir hver jarðarbúi 3-7 kg. af raf- og rafeindatækjaúrgangi, þannig að þarna eru gríðarleg tækifæri til úrbóta. Í nýrri skýrslu sérfræðingahóps á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) kemur fram að af 60 málmum hafi aðeins 20 náð 50% endurvinnsluhlutfalli og að endurvinnsluhlutfall 34 málmtegunda sé innan við 1%.
(Sjá frétt á heimasíðu UNEP 24. apríl).

Eiturefni í vörum vaxandi vandamál

EiturTiltölulega algengt er að vörur til daglegra nota innihaldi hættuleg efni umfram leyfileg mörk. Þetta er ein helsta niðurstaðan úr athugunum sem Efnaeftirlit Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen) hefur gert í tilefni þarlends átaks undir yfirskriftinni „giftfri vardag“. Í framhaldi af þessu hefur stofnunin m.a. lagt fram kærur vegna óleyfilegs efnainnihalds í 12% af þeim 260 mismunandi leikföngum sem skoðuð voru. Sama gildir um 11% af 128 tegundum rafeindatækja. Þetta eru mun fleiri frávik en forsvarsmenn stofnunarinnar höfðu átt von á. Þá hefur stofnunin sent tillögur til Evrópusambandsins um bann og aðrar aðgerðir vegna 12 mismunandi efnasambanda. Stofnunin telur efnainnihald í vörum vera vaxandi vandamál, auk þess sem vinna þurfi markvisst gegn efnamengun drykkjarvatns og huga sérstaklega að efnum í nánasta umhverfi barna.
(Sjá frétt á heimasíðu Kemikalieinspektionen 6. febrúar).