Breskar samlokur hafa stærra kolefnisspor en 8 milljón bílar

Árlega sporðrenna Bretar um 11,5 milljörðum samloka og losa með því um 9,5 milljón tonn af koltvísýringsígildum út í andrúmsloftið, að því er fram kemur í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Sustainable Production and Consumption. Þetta samsvarar losun frá 8,6 milljónum bíla. Stærsta kolefnissporið í rannsókninni átti samloka með eggi, beikoni og pylsu, eða 1,44 kg. Það jafngildir því að bíl sé ekið u.þ.b. 19 km. Samloka með eggi og kirsi kom best út í flokki búðarsamloka með 0,74 kg. Kolefnisspor heimagerðra samloka er yfirleitt mun minna. Framleiðsla og úrvinnsla áleggs reyndist eiga stærstan þátt í kolefnisspori búðarsamloka, eða um 37-67%, umbúðir orsökuðu um 8,5% og flutningur og kæling um 4%. Kæligeymslur verslana geta átt allt að 25% hlutdeild í heildarsporinu. Höfundar rannsóknarinnar benda á að með breytingum á uppskriftum, umbúðum og úrgangsmeðhöndlun megi draga úr losun um u.þ.b. helming og að hægt væri að minnka matarsóun um meira en 2.000 tonn á ári með því að lengja endingartímann.
(Sjá frétt Independent 25. janúar).

Færðu inn athugasemd