Um 815 milljónir manna, eða um 11% jarðarbúa, þjáðust af hungri á árinu 2016 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hungruðum fer nú fjölgandi, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðasta áratuginn þegar hungruðum fækkaði jafnt og þétt. Vaxandi hungursneyð á sér einkum tvær orsakir samkvæmt skýrslunni, þ.e.a.s. hernaðarátök og loftslagsbreytingar. Verst er ástandið í austanverðri Afríku þar sem 33,9% íbúa þjást af hungri. Í skýrslunni kemur fram að til þess að ná heimsmarkmiðinu um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030 þurfi að ráðast að öllum þeim þáttum sem grafa undan fæðuöryggi í heiminum.
(Sjá frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 15. september).