Hungursneyð fer vaxandi á ný

Um 815 milljónir manna, eða um 11% jarðarbúa, þjáðust af hungri á árinu 2016 að því er fram kemur í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna. Hungruðum fer nú fjölgandi, sem er viðsnúningur frá því sem verið hefur síðasta áratuginn þegar hungruðum fækkaði jafnt og þétt. Vaxandi hungursneyð á sér einkum tvær orsakir samkvæmt skýrslunni, þ.e.a.s. hernaðarátök og loftslagsbreytingar. Verst er ástandið í austanverðri Afríku þar sem 33,9% íbúa þjást af hungri. Í skýrslunni kemur fram að til þess að ná heimsmarkmiðinu um útrýmingu hungurs fyrir árið 2030 þurfi að ráðast að öllum þeim þáttum sem grafa undan fæðuöryggi í heiminum.
(Sjá frétt Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) 15. september).

Samningur um losun frá flugumferð væntanlegur á næsta ári

flugumferdLíklegt þykir að samningur um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda frá flugumferð náist á næsta ári, en losun frá flugi fellur ekki undir loftslagssamning Sameinuðu þjóðanna (SÞ). Samningagerð um samdrátt í losun frá flugumferð er í höndum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og því er ekki minnst á flugumferð í nýjum loftslagssamningi SÞ. ICAO vinnur að þróun markaðslegra stjórntæka sem gera flugfélögum kleift að draga úr losun með kaupum á losunarheimildum og kolefnisjöfnun samhliða því sem unnið er að alþjóðlegum viðmiðunarmörkun fyrir hágmarkslosun frá flugvélum. Erfitt hefur reynst að ákveða hvernig flugfélög eigi að mæla og reikna losun og hvernig taka eigi á mismunandi efnahagsþróun í aðildarríkjum og hjá flugfélögum. Stofnunin vonast til að hægt verði að kynna flugfélögum markaðstengt fyrirkomulag í september á næsta ári þegar frekari útfærslur liggja fyrir.
(Sjá frétt PlanetArk 11. desember).

Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar vara við loftslagsbreytingum

pope_160Vatíkanið og Sameinuðu þjóðirnar hafa sameiginlega varað fólk við afleiðingum loftslagsbreytinga og fordæmt raddir efasemdarmanna sem halda því fram að breytingar á loftslagi séu ekki af mannavöldum. Ban Ki-Moon, aðalframkvæmdastjóri SÞ, og Frans páfi ræddu málið fyrir setningu ráðstefnu um loftslagsmál undir yfirskriftinni „Siðferðilegar víddir loftslagsbreytinga og sjálfbærrar þróunar“, þar sem vísindamenn og trúarleiðtogar leiddu saman hesta sína. Í yfirlýsingu ráðstefnunar kemur fram að manngerðar loftslagsbreytingar séu vísindalegur raunveruleiki, að það sé siðferðisleg og trúarleg skylda mannkyns að bregðast við og að COP-fundurinn í París í desember gæti orðið síðasta tækifærið til að semja um aðgerðir til að fyrirbyggja að meðalhitastig jarðar hækki um meira en 2°C. Páfinn hyggst gefa út páfabréf á næstunni til að koma þeim skilaboðum á framfæri að umhverfisvernd sé ófrávíkjanleg krafa og heilög skylda hins trúaða samfélags. Miklar vonir eru bundnar við að páfabréfið hafi áhrif á viðræðurnar í París í desember.
(Sjá frétt PlanetArk 29. apríl).