Leiðin um Norður-Íshafið milli Norður-Evrópu og Kína verður varla orðin hagkvæm fyrir skipaflutninga fyrr en um eða eftir árið 2040 ef marka má nýja skýrslu frá Viðskiptaháskóla Kaupmannahafnar. Ýmsir hafa bundið miklar vonir við að þessi leið opnist á næstu árum en að mati skýrsluhöfunda verður ísinn á leiðinni svo óútreiknanlegur enn um sinn að kosta þurfi miklu til að styrkja ísvarnir á skipum eða kaupa þjónustu ísbrjóta. Lágt olíuverð gerir samanburðinn við Suezskurðinn enn óhagstæðari en ella. Félag danskra flutningaskipaeigenda (Danmarks Rederiforening) er á sama máli, en í félaginu eru nokkur af stærstu skipafélögum heims sem myndu jafnframt hafa mestan hag af opnun norðurleiðarinnar.
(Sjá frétt The Guardian 9. febrúar).
Greinasafn fyrir merki: Norðurheimskautssvæðið
Fjárfestar gætu tapað 260 þúsund milljörðum
Á næstu 10 árum gætu fjárfestar tapað allt að 2.000 milljörðum Bandaríkjadala (um 260.000 milljörðum ísl. kr.) af því fé sem þeir hafa lagt í fyrirtæki og verkefni í jarðefnaeldsneytisgeiranum, þ.e.a.s. ef leiðtogar þjóða heims ná samkomulagi í París í næsta mánuði um aðgerðir sem duga til að halda hitastigshækkun á jörðinni innan við 2°C. Til að ná því marki þarf að draga hratt og mikið úr losun gróðurhúsalofttegunda, sem þýðir m.a. að engin þörf verður fyrir nýjar kolanámur og að eftirspurn eftir olíu mun minnka eftir 2020. Því verða mörg áformuð verkefni tilgangslaus og óarðbær, m.a. olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og vinnsla á tjörusandi. Þetta kemur fram í skýrslu hugveitunnar Carbon Tracker sem kynnt var í vikunni. Framkvæmdastjóri Carbon Tracker hafði á orði þegar skýrslan var kynnt að viðskiptasagan væri vörðuð dæmum af fyrirtækjum á borð við Kodak, sem hefðu ekki áttað sig á yfirvofandi breytingum og því setið eftir. Skýrslan fæli í sér viðvörun til fyrirtækja í jarðefnaeldsneytisgeiranum um hættuna á verulegu verðmætatapi sem komast mætti hjá.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Fljótandi plastrusl við Norðurheimskautið
Plastrusl flýtur á sjónum við Norðurheimskautið að því er fram kom í rannsókn sem sagt er frá í vefútgáfu vísindaritsins Polar Biology, en plastrusl hefur ekki áður fundist á yfirborði sjávar svo norðarlega. Í rannsókninni var þyrlu flogið yfir Framsund milli Grænlands og Svalbarða (á svæði u.þ.b. 1.500 km norðaustur af Melrakkasléttu) auk þess sem sama svæði var skoðað úr skipsbrú. Þarna fannst reyndar „aðeins“ 31 hlutur úr plasti á 5.600 km langri leið, en þar sem allar athuganir voru gerðar úr 18 m hæð yfir sjávarborði náði talning einungis til stórra plaststykkja. Ekki er vitað hvernig plastið barst þarna norðureftir, en það kann að hafa losnað úr sjötta plastfláka úthafanna sem líklega er að myndast í Barentshafi. Aukin skipaumferð kann einnig að hafa sitt að segja í þessu sambandi. Þéttleiki plasts á hafsbotni á sama svæði er talinn vera 10-100 sinnum meiri en á yfirborðinu.
(Sjá frétt ScienceDaily í gær).
Gazprom og GAP kosin verstu fyrirtæki í heimi
Rússneski olíu- og gasrisinn Gazprom og bandaríski fataframleiðandinn GAP fengu skammarverðlaunin Public Eye Awards þetta árið, en verðlaunin eru veitt árlega á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos þeim fyrirtækjum sem almenningur kýs sem verstu fyrirtæki í heimi. Gazprom fékk 95.277 atkvæði í kjörinu, en á árinu 2013 varð fyrirtækið fyrst til að hefja olíuboranir á Norðurheimskautssvæðinu og tókst strax á fyrstu mánuðunum að brjóta ýmsar reglur um öryggis- og umhverfismál. GAP varð fyrir valinu hjá sérstakri dómnefnd um versta fyrirtækið, en GAP neitað að skrifa undir samkomulag um bindandi reglur um bruna- og öryggismál í fataverksmiðjum í Bangladesh.
(Sjá frétt Miljöaktuellt 23. janúar).
Olíuslys á Norðurheimskautssvæðinu fyrirséð
Fullvíst má telja að olíuslys verði á Norðurheimskautssvæðinu ef leyft verður að bora þar eftir olíu. Þetta er mat sérfræðings sem stýrði rannsókn á Deepwater Horizon slysinu við oíuborpall BP á Mexíkóflóa vorið 2010. Slys á Norðurheimskautssvæðinu myndi auk heldur hafa langtum víðtækari afleiðingar en slys sunnar á hnettinum, þar sem niðurbrot olíunnar mun taka nokkra áratugi í svo köldum sjó, auk þess sem erfitt mun verða að beita tiltækum hreinsibúnaði við þær veðuraðstæður sem algengar eru á þessum slóðum. Olíuleit á svæðinu getur jafnvel skapað mikla hættu og haft áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt The Guardian í dag).
Skemmtiferðaskip spilla loftgæðum á norðurslóðum
Nýleg rannsókn á loftmengun í Ny Ålesund á Svalbarða sýnir að mengun er talsvert meiri þá daga sem skemmtiferðaskip eiga þar viðdvöl en aðra daga. Þetta gildir jafnt um brennisteinsoxíð, svart kolefni (sót) og öragnir (60 nm). Höfundar rannsóknarinnar benda á að þessi mengun geti hugsanlega haft áhrif á vistkerfi svæða sem almennt eru talin ósnortin og jafnframt skekkt niðurstöður mikilvægra grunnmælinga á slíkum svæðum, svo sem á Zeppelinfjalli á Svalbarða. Auk þess sé þetta áminning um mikilvægi þess að huga að vaxandi mengunarhættu samfara aukinni skipaumferð um Norðurslóðir.
(Sjá útdrátt í Atmospheric Chemistry and Physics).
Norðurheimskautssvæðið þarf meiri vernd
Umhverfissstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) telur þörf á að verja Norðurheimskautssvæðið betur en gert er gegn ágengni í náttúruauðlindir á borð við málma, olíu og gas, sem nú verða sífellt aðgengilegri samfara bráðnun heimskautsíssins. Að mati UNEP gegnir Norðurskautsráðið lykilhlutverki í að tryggja ábyrga umgengni um þessar auðlindir. Allar ákvarðanir um nýtingu þeirra verði að byggja á mati á áhrifum nýtingarinnar á vistkerfi og stofna.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).
Coca Cola styrkir Norðurheimskautsverkefni WWF
Coca-Cola ætlar að styrkja alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin WWF um 3 milljónir evra (rúml. hálfan milljarð ísl. kr.) á næstu þremur árum. Féð verður notað til að hrinda af stað átaki um alla Evrópu til að vekja athygli á alvarlegum áhrifum loftslagsbreytinga á vistkerfi á Norðurheimskautssvæðinu. Athyglinni verður sérstaklega beint að ísbjörnum, en ör bráðnun heimskautaíssins neyðir birnina til að verja sífellt lengri tíma á landi, sjálfum sér og mannfólkinu til armæðu og tjóns. Þess er og að vænta að auglýsingar og umbúðir Coca Cola verði nýttar til að fræða neytendur um þá ógn sem bráðnun heimskautaíssins raunverulega er.
(Sjá frétt PlanetArk 18. janúar).
Sífellt meira plastrusl á botni Norður-Íshafsins
Mikið magn af rusli, aðallega plastrusli, hefur safnast upp á botni Norður-Íshafsins á síðustu 10 árum. Þannig tvöfaldaðist magnið, mælt í stykkjatali, milli áranna 2002 og 2011, þ.e. úr 3.635 í 7.710 stykki á ferkílómetra. Þessar niðurstöður, sem birtust í vísindagrein í tímaritinu Marine Pollution Bulletin fyrir áramót, byggja á neðansjávarmyndum sem teknar voru vestur af Svalbarða. Plastið hefur margvísleg áhrif á lífríkið, svo sem með því að breyta efnasamsetningu við botninn, loka fyrir aðgang súrefnis og búa til skilyrði fyrir framandi lífverur, auk beinna eituráhrifa, köfnunarhættu o.s.frv. Áætlað er að um 10% af árlegri plastframleiðslu í heiminum endi í sjónum, líklega samtals um 27 milljónir tonna.
(Sjá frétt í Sience for Environment Policy, fréttabréfi Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um umhverfismál, í gær).