Bænarbréf frá sökkvandi eyjum

eyAnote Tong, forseti eyríkisins Kiribati, hefur skrifað bréf til leiðtoga þjóða heims með bón um að stöðva öll áform um að opna nýjar kolanámur. Að öðrum kosti sé hætta á að Kiribati og nokkur önnur eyríki hverfi undir yfirborð sjávar vegna loftslagsbreytinga. Auk Kiribati hafa tíu önnur eyríki í Kyrrahafi skrifað undir bréfið, en fátt er um svör frá leiðtogum iðnríkjanna. Það gildir m.a. um sænsk stjórnvöld, þrátt fyrir að Anote Tong hafi rætt þessi mál sérstaklega við bæði forsætis- og þróunarmálaráðherra Svíþjóðar í heimsókn sinni þangað á liðnu vori. Í nýlegu viðtali við Svenska Dagbladet sagði Richard Denniss, yfirhagfræðingur hugveiturnnar The Australian Institute, að ástæðan kunni að liggja í áhyggjum sænsku ríkisstjórnarinnar af afkomu ríkisorkufyrirtækisins Vattenfall, sem hefur mikla hagsmuni af viðskiptum með kol. „Tölum bara hreint út. Ef nýjar kolanámur verða opnaðar munu lönd á borð við Kiribati sökkva“, sagði Richard í viðtalinu.
(Sjá frétt Miljöaktuellt í dag).

Loftslagsflóttamaður sækir um hæli

KiribatiIoane Teitiota, 37 ára fjölskyldufaðir frá Kiribati, hefur farið þess á leit við áfrýjunardómstól í Auckland á Nýja-Sjálandi að hann snúi við fyrri ákvörðun um að synja Ioane um hæli sem loftslagsflóttamaður. Upphaflega ákvörðunin var byggð á því að lagarök skorti, þar sem lífi umsækjandans væri ekki ógnað þótt hann sneri til fyrri heimkynna. Ione heldur því fram að fjölskyldan sé ekki óhult á Kiribati, þar sem hækkað sjávarborð sé þegar farið að leiða til mengunar drykkjarvatns, uppskerubrests og eyðileggingar heimila í flóðum. Flóttamannalöggjöfin sé úrelt að því leyti að hún nái ekki til loftslagsógna. Kiribati er eyjaklasi á Suður-Kyrrahafi, og er meðalhæð lands þar aðeins um 2 m.y.s. Yfirvöld þar hafa keypt land á Fijieyjum þar sem áformað er að reisa byggðir fyrir fólk frá Kiribati. Einnig er unnið að menntunarátaki undir yfirskriftinni „þjóðflutningar með reisn“, sem ætlað er að búa íbúa sem best undir vistaskiptin.
(Sjá frétt PlanetArk 17. október).