Erlend landbúnaðarfyrirtæki stuðla að vatnsskorti í Afríku

africa-green-waterMikil vatnsþörf korntegunda sem ræktaðar eru á svæðum sem erlend fyrirtæki hafa tekið á leigu í Afríku til landbúnaðarnota á sinn þátt í vaxandi vatnsskorti í álfunni og harðari samkeppni um vatnsauðlindina. Þetta kom fram í rannsókn vísindamanna við Háskólann í Lundi, sem sagt er frá í tímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences. Það sem af er öldinni hafa erlend fyrirtæki tekið á leigu stórar spildur í Afríku í þeim tilgangi að rækta þar ódýrar matjurtir, ódýrt timbur og ódýrt hráefni til framleiðslu á lífeldsneyti. Tegundirnar sem ræktaðar eru á þessum svæðum eru iðulega frekari á vatn en þær tegundir sem ræktaðar hafa verið á svæðunum til þessa. Þessu hefur fylgt stóraukin nýting á ferskvatni til vökvunar í stað regnvatns sem áður dugði að mestu leyti. Leigusamningar um land í Afríku eru gjarnan gerðir til allt að 99 ára og fela sjaldnast í sér nokkrar takmarkanir á vatnsnotkun.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Pepsi stórgræðir á umhverfisstarfinu

29087 (160x107)Aukin áhersla á umhverfismál hefur sparað gosdrykkjarisanum Pepsi rúmlega 375 milljónir sterlingspunda (rúmlega 72 milljarða ísl. kr.) frá því á árinu 2010. Sem dæmi um árangur má nefna að á árinu 2014 notaði Pepsi 23% minna vatn á hverja framleiðslueiningu en árið 2006 og á sama tíma batnaði orkunýting bílaflota fyrirtækisins um 16%, m.a. vegna fjölgunar ökutækja sem ganga fyrir rafmagni og lífeldsneyti. Þá  minnkaði umbúðanotkun fyrirtækisins um 40.000 tonn á milli áranna 2013 og 2014 og á sama tíma jókst notkun umbúða úr endurunnu efni um 23%. Að sögn Indra Nooyi, forstjóra Pepsi, er sjálfbærni ekki eitthvað sem fyrirtæki styrkja með hluta af hagnaði sínum, heldur stuðlar áhersla á sjálfbærni að auknum hagnaði. Þrátt fyrir þennan mikla árangur liggur Pepsi undir ámæli vegna óábyrgrar notkunar sinnar á pálmaolíu, en ætlunin mun vera að bæta þar úr fyrir árslok.
(Sjá frétt EDIE í dag).

Mikið ósýnilegt vatn í hversdagsvörum

coffee_tea_160Um fimmfalt meira vatn þarf til að framleiða einn bolla af kaffi en einn bolla af tei samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna Friends of the Earth þar sem sjá má útreikninga á vatns- og landnotkun ýmissa vörutegunda til daglegra nota. Þar kemur fram að um 136 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn kaffibolla. Mest af þessu vatni fer í ræktunina og í að fjarlægja hlaupkennt lag utan af baununum. Þá kemur fram að að meðaltali þurfi 13 tonn af vatni og 18 fermetra af landi til að framleiða einn snjallsíma. Samtökin skora á fyrirtæki að stunda ábyrga framleiðslu með því að fylgjast með og draga úr auðlindanotkun og upplýsa neytendur um vistspor framleiðslunnar. Um leið dragi fyrirtækin úr framleiðslukostnaði og auki arðsemi sína.
(Sjá frétt EDIE 12. maí).

Bruðlað með „ósýnilegt vatn“

watershortage_160Brýnt er að draga úr „ósýnilegri vatnsneyslu“ við matvælaframleiðslu að mati Heimssamtaka efnaverkfræðinga (IChemE), en með „ósýnilegri vatnsneyslu“ er átt við það vatn sem notað er í framleiðsluferlinu. Samtökin áætla að hver einstaklingur neyti um 1,8 milljónar lítra af ósýnilegu vatni árlega eða um 2.000-5.000 lítra á dag. Horfur eru á að vatnsnotkun muni aukast um meira en 50% fram til ársins 2050 vegna fólksfjölgunar og aukinnar áherslu á vestrænt neyslumynstur, en um 70% af öllu ferskvatni eru nú þegar nýtt í landbúnaði. Með hliðsjón af þessu hafa samtökin lagt til að stefnt verði að 20% samdrætti til ársins 2050 til að auka fæðuöryggi og minnka álag á vatnslindir heimsins.
(Sjá frétt ENN 5. janúar).

Saltvatn notað í kartöflurækt

salt-tolerant potatoesKartöflukvæmi sem þolir saltvatn hefur verið þróað í tilraunaverkefninu Salt Farm Texel í Hollandi, en markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hægt er að vökva með saltvatni. Um 89% af öllu vatni jarðar er saltvatn og er talið að nú séu um 50% af landbúnaðarsvæðum heimsins í hættu vegna innstreymis saltvatns í grunnvatn. Nokkur tonn af saltþolnum kartöflum voru nýlega send til Pakistan þar sem þau verða ræktuð á svæði sem ekki er hægt að nýta í annað vegna saltmengunar. Þar sem skortur á ferskvatni er eitt stærsta vandamál samtímans telja menn mikil tækifæri felast í ræktun þar sem hægt er nota saltvatn í stað þess að grípa til afsöltunar sem  hefur mikinn kostnað í för með sér. Með þessu móti er einnig hægt að nýta til ræktunar svæði sem áður voru ónýtanleg.
Sjá frétt the Guardian 18. október).