Krákur þjálfaðar til að tína upp sígarettustubba

Hollenskt sprotafyrirtæki hefur þróað búnað og þjálfunarkerfi til að kenna krákum að tína upp sígarettustubba. Árlega henda jarðarbúar frá sér samtals um 4.500 milljörðum stubba og allir innihalda þeir eiturefni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu. Stubba er einkum að finna í þéttbýli og því hentar best að þjálfa dýr til verksins, sem eru vön borgarlífinu. Upphaflega átti að nota dúfur en þær þóttu ekki nógu námsfúsar. Ætlunin er að kenna krákunum að skila stubbunum í þar til gerðan krákubar þar sem sjálfvirkur búnaður skammtar mat eftir að hafa gengið úr skugga um að stubburinn sé raunverulega stubbur en ekki einhver annar úrgangur.
(Sjá frétt IFL Science 13. október).

Rafrettur ógna heilsu

ecig_160Heilbrigðisyfirvöld í Kaliforníu tilkynntu í fyrradag að þau hefðu skilgreint rafrettur sem heilsufarsógn og að þörf væri á að laga reglur um sölu og notkun rafretta að því sem gildir um venjulegar tóbaksvörur. Í skýrslu Heilbrigðisstofnunar Kaliforníu kemur fram að þrátt fyrir að rafrettur hafi minni neikvæð áhrif á umhverfi og heilsu en hefðbundnir vindlingar, gefi þær enga að síður frá sér krabbameinsvaldandi efni og ýti undir að Bandaríkjamenn verði háðir nikótíni. Þörf sé á auknum rannsóknum á langtímaáhrifum rafretta á heilsu auk þess sem samræma þurfi reglugerðir um innihaldsmerkingar, viðvaranir, markaðsetningu og sölu. Sérstaka áherslu þurfi að leggja á forvarnir gegn nikótíninntöku barna, en sífellt fleiri börn undir 5 ára aldri fá nikótíneitrun eftir að hafa gleypt rafrettufyllingar (fljótandi nikótín). Slík tilfelli í Kaliforníu voru 7 árið 2012 en 154 árið 2014. Vinsældir rafrettunnar hafa aukist gríðarlega og leitt til mjög breyttrar nikótíneyslu án þess að yfirvöld hafi brugðist við.
(Sjá frétt ABC News 28. janúar).