Saltvatn notað í kartöflurækt

salt-tolerant potatoesKartöflukvæmi sem þolir saltvatn hefur verið þróað í tilraunaverkefninu Salt Farm Texel í Hollandi, en markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hægt er að vökva með saltvatni. Um 89% af öllu vatni jarðar er saltvatn og er talið að nú séu um 50% af landbúnaðarsvæðum heimsins í hættu vegna innstreymis saltvatns í grunnvatn. Nokkur tonn af saltþolnum kartöflum voru nýlega send til Pakistan þar sem þau verða ræktuð á svæði sem ekki er hægt að nýta í annað vegna saltmengunar. Þar sem skortur á ferskvatni er eitt stærsta vandamál samtímans telja menn mikil tækifæri felast í ræktun þar sem hægt er nota saltvatn í stað þess að grípa til afsöltunar sem  hefur mikinn kostnað í för með sér. Með þessu móti er einnig hægt að nýta til ræktunar svæði sem áður voru ónýtanleg.
Sjá frétt the Guardian 18. október).

Diclofenacbann bjargar hrægömmum

Stofnar hrægamma í Pakistan eru farnir að rétta úr kútnum eftir að hætt var að nota bólgueyðandi lyfið Diclofenac sem dýralyf. Sala lyfsins sem dýralyfs var bönnuð 2006, en fram að þeim tíma hafði hrægömmum í þessum hluta Asíu fækkað um allt að 99% á 10 árum. Á fyrstu tveimur árunum eftir að bannið tók gildi fjölgaði Indlandsgömmum (Gyps indicus) á talningarstöðum í Pakistan um 52%. Enn mun þó langt í að stofnar hrægamma í Asíu nái fyrri styrk og enn er nokkuð um að húsdýrum sé gefið Voltaren eða aðrar tegundir Diclofenaclyfja sem leyfilegt er að selja sem lyf fyrir fólk. Hræ þessara dýra eru eitur fyrir gammana.
(Sjá frétt The Guardian í gær).