Krákur þjálfaðar til að tína upp sígarettustubba

Hollenskt sprotafyrirtæki hefur þróað búnað og þjálfunarkerfi til að kenna krákum að tína upp sígarettustubba. Árlega henda jarðarbúar frá sér samtals um 4.500 milljörðum stubba og allir innihalda þeir eiturefni sem eru skaðleg umhverfi og heilsu. Stubba er einkum að finna í þéttbýli og því hentar best að þjálfa dýr til verksins, sem eru vön borgarlífinu. Upphaflega átti að nota dúfur en þær þóttu ekki nógu námsfúsar. Ætlunin er að kenna krákunum að skila stubbunum í þar til gerðan krákubar þar sem sjálfvirkur búnaður skammtar mat eftir að hafa gengið úr skugga um að stubburinn sé raunverulega stubbur en ekki einhver annar úrgangur.
(Sjá frétt IFL Science 13. október).

Á að banna sígarettufiltera?

VindlingsstubburTil greina kemur að banna sígarettufiltera, setja skilagjald á sígarettustubba, merkja sígarettupakka með viðvörunum um umhverfisáhrif og gera framleiðendur ábyrga fyrir hreinsun. Þetta eru nokkrar þeirra aðgerða sem vísindamenn stinga upp á til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif sígarettustubba á umhverfið. Samkvæmt rannsókn sem gerð var við ríkisháskólann í San Diego í Bandaríkjunum er 75% af þeim 6 billjónum sígaretta sem framleiddar eru árlega hent út í náttúruna að notkun lokinni. Tóbaksvörur innihalda meðal annars nikótín, varnarefni, arsen, blý og etýlfenól, en öll þessi efni geta haft bráð eiturhrif á lífverur. Sígarettufilterar innihalda auk þess plasteindir sem brotna hægt niður.
(Sjá frétt Science Daily í dag).