Réttlætismerki í 25 ár

Fairtrade 25 áraRéttlætismerkingar (siðgæðisvottanir (e. Fairtrade)) eiga 25 ára afmæli um þessar mundir. Fyrsta merkið af þessu tagi var hollenska Max Havelaar merkið, og fyrsta vottaða varan var kaffi frá Mexíkó sem selt var í hollenskum stórmörkuðum haustið 1988. Þetta frumkvæði Hollendinga er orðið að alþjóðlegri hreyfingu og nú eru „Fairtrade-vörur“ seldar fyrir um 4,8 milljarða evra (um 790 milljarða ísl. kr.) á ári. Vottaðar vörur eru um 30.000 talsins, og er áætlað að um 1,35 milljónir bænda og landbúnaðarverkamanna njóti góðs af þessum viðskiptum.
(Sjá frétt á heimasíðu Fairtrade International (FLO) 13. nóvember).

Leigja treyju?

LeasefleeceFyrirtækið Mud Jeans í Hollandi býður nú hettupeysur til leigu, gerðar úr endurunnum gallabuxum úr lífrænni bómull, auk viskósblöndu. Leigjendur geta valið um að greiða 100 evrur í upphafi leigutímans, sem getur verið eins langur og verkast vill, eða greiða 20 evrur í upphafi og síðan 5 evrur á mánuði þar til sömu hámarksupphæð er náð. Þegar flíkinni er skilað, sem getur gerst hvenær sem er, er 20 evru skilagjald endurgreitt í báðum tilvikum í formi afsláttar af næstu viðskiptum. Með þessu móti er fötunum aldrei hent, heldur er allt efnið endurunnið að notkun lokinni. Verkefnið gengur undir nafninu Lease a fleece.
(Sjá frétt EDIE í dag).