Ódýr hálfleiðari gefur nýjar vonir

polyaniline-160Efnafræðingar við Arlingtonháskólann í Texas hafa sýnt fram á að hægt er nota fjölliðuna pólýanilín sem ljósskaut (e. photocathode) í sólarsellu sem klýfur koltvísýring sem síðan er hægt að vinna áfram í alkóhól til eldsneytis. Kostirnir við þessa aðferð umfram þær sem áður hafa verið notaðar eru m.a. þeir að í þessu tilviki þarf ekki utanaðkomandi efnahvata og auk þess eiga efnahvörfin sér stað við lágan hita. Ef mögulegt reynist að nota þessa aðferð við eldsneytisframleiðslu opnast ýmsir nýir möguleikar, m.a. vegna þess að pólýanilín er ódýrt efni sem auðvelt er að breyta í dúk eða filmu. Slíka dúka eða filmur mætti nota í stórum stíl á þök og á aðra fleti sem þar með gætu nýst við eldsneytisframleiðsluna.
(Sjá frétt Science Daily 20. september).

67% af almenningssamgöngum í Svíþjóð knúin með endurnýjanlegu eldsneyti

BiodieselhybriderHlutfall endurnýjanlegs eldsneytis í almenningssamgöngum í Svíþjóð er komið í 67% en árið 2006 var þetta hlutfall aðeins 6%. Á síðasta ári var hlutfallið 58%. Þá var Stokkhólmslén sá landshluti þar sem hlutfallið var hæst, en árið 2014 voru 85,7% af öllum kílómetrum í almenningssamgöngum á því svæði eknir á endurnýjanlegu eldsneyti. Lífdísill er langmest notaða endurnýjanlega eldsneytið, metan af endurnýjanlegum uppruna (lífgas) er víðast hvar í öðru sæti og í Stokkhólmi og víðar er einnig nokkuð notað af etanóli (ED95).
(Sjá frétt í Bussmagasinet í gær).

Shell sektað vegna brota á lögum um loftgæði

shell_160Olíurisinn Shell þarf að greiða um 1 milljón bandaríkjadala (um 132 millj. ísl. kr.) í skaðabætur vegna brota á bandarísku loftgæðalögunum (the Clean Air Act). Umhverfisstofnun Bandaríkjanna kærði Shell vegna fjögurra atriða sem tengdust sölu og merkingu á eldsneyti. Þannig stóðust ekki upplýsingar fyrirtækisins um brennisteinsinnihald eldsneytis, sem sagt var innihalda minna en 15 ppm af brennisteini en innihélt í raun allt að 500 ppm. Einnig reyndist eldsneytið í einhverjum tilvikum innihalda of mikið af etanóli og vera of rokgjarnt, auk þess sem fyrirtækið hafði vanrækt lögbundið eftirlit og skráningu. Magn brennisteins og hlutfall etanóls í eldsneyti hefur mikil áhrif á loftgæði auk þess sem rokgjarnt eldsneyti stuðlar að ósonmyndun við yfirborð jarðar.
(Sjá frétt ENN 20. janúar).