Fairtrade samtökin í Bretlandi hófu í gær átaksverkefnið „I Do“ sem hvetur fólk í giftingarhugleiðingum til að velja siðgæðisvottaða trúlofunar- og giftingarhringa. Siðgæðisvottað gull tryggir vinnuöryggi, eykur fræðslu, bætir heilsugæslu og tryggir lífsviðurværi verkamanna í gullnámum heimsins. Laun námuverkamanna geta verið allt niður i 1 bandaríkjadollar á dag (um 131 ísl. kr.), auk þess sem verkamennirnir starfa oft við hættulegar aðstæður í daglegri snertingu við efni á borð við kvikasilfur, sýaníð og saltpéturssýru. Verkefnisstjóri „I Do“ segir verkefnið einstaklega mikilvægt vegna þess að „gull er svo falleg vara sem fólk tengir við rómantík og birtu. Með því að nota Fairtrade til að tryggja gegnsæi og sýna uppruna gullsins, verður varan enn sérstakari“.
(Sjá frétt Fairtrade í Bretlandi 13. janúar).