Merkingin „100% náttúrulegt“ á útleið hjá General Mills

Nature-Valley-Trail-Mix-Bar.jpg.662x0_q100_crop-scaleDómsátt hefur náðst í máli samtakanna Center for Science in the Public Interest (CSPI) gegn General Mills, en samtökin hófu lögsókn á hendur fyrirtækinu árið 2012 vegna notkunar þess á merkingunni „100% náttúrulegt“. Dómsáttin felur í sér að General Mills hættir að nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af tilbúnum efnum á borð við háfrúktósa maíssýróp, maltódextrín og natríumbíkarbónat. Þar að auki mun fyrirtækið ekki nota merkinguna á vörur sem innihalda meira en 0,9% af erfðabreyttu efni. CSPI bindur vonir við að lögsóknin gefi tóninn fyrir svipaðar málsóknir og stuðli að ábyrgðarfyllri merkingum.
(Sjá frétt TreeHugger í dag).

Bannað verði að merkja matvöru sem „náttúrulega“

natturulegtBandarísku neytendasamtökin Consumer Reports hafa krafist þess að bannað verði að merkja matvöru með áletruninni „náttúrulegt“ og að skylt verði að sérmerkja allar matvörur sem innihalda erfðabreytt efni. Þessi krafa kemur í kjölfar rannsóknar samtakanna, sem leiddi í ljós að algengar matvörur, svo sem morgunkorn, snakk og barnamatur, sem merktar höfðu verið sem „náttúrulegar“, innihéldu mælanlegt magn af erfðabreyttu korni. Um 64% Bandaríkjamanna telja að sé vara merkt sem „náttúruleg“ innihaldi hún ekki erfðabreytt efni, en um 75% bandarískra neytenda leitast við að kaupa vörur án slíkra efna. Þess vegna er áletrunin „náttúrulegt“ beinlínis villandi að mati samtakanna.
(Sjá frétt ENN 8. október).

Glyphosate tengt við brjóstakrabbamein

Roundup ready sojaPlöntueitrið Glyphosate getur stuðlað að hormónaháðum krabbameinsvexti í brjóstum kvenna jafnvel þótt styrkur efnisins sé ekki hærri en oft gerist þar sem það er notað sem illgresiseyðir. Þetta kemur fram í grein í septemberhefti tímaritsins Food and Chemical Toxicology. Glyphosate er þekktast undir vörumerkinu Roundup. Efnið er mjög mikið notað í landbúnaði, ekki síst við ræktun erfðabreyttra sojabauna, nánar tiltekið svonefnds „Roundup ready“ afbrigðis. Áhrif efnisins á krabbameinsvöxt virðast magnast þar sem plöntuestrógenið genistein er einnig til staðar, en talsvert er einmitt af því efni í sojabaunum.
(Sjá grein í septemberhefti Food and Chemical Toxicology).

Erfðabreyttur maís veldur heilsutjóni í rottum

Rottur sem fóðraðar eru á erfðabreyttum Roundup-þolnum maís lifa að meðaltali skemur og fá frekar æxli í mjólkurkirtla en aðrar rottur, auk þess sem þeim er mun hættara við lifrar- og nýrnaskemmdum. Þetta kom fram í rannsókn franskra vísindamanna sem sagt var frá í grein í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology í gær. Umrædd erfðabreyting er til þess gerð að hægt sé að eyða illgresi á maísökrunum með plöntueitrinu roundup án þess að skaða maísplönturnar. Heilsufarsáhrifin komu fram í rannsókninni hvort sem erfðabreytti maísinn hafði verið úðaður með roundup eður ei.
(Sjá nánar á ScienceDirect í gær).