Í þessum mánuði og þeim næsta munu 500 íbúar Kaupmannahafnar mæla svifryksmengun í nánasta umhverfi sínu með þar til gerðu appi og búnaði sem tengist myndavélum iPhone síma. Þessar mælingar eru hluti af evrópsku verkefni sem gengur undir nafninu iSPEX og hefur það markmiði að kortleggja loftmengun í evrópskum borgum með meiri nákvæmni en áður og auka þannig þekkingu manna á áhrifum loftmengunar á heilsu og umhverfi.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í gær).
Greinasafn fyrir merki: snjallsímar
Mikið ósýnilegt vatn í hversdagsvörum
Um fimmfalt meira vatn þarf til að framleiða einn bolla af kaffi en einn bolla af tei samkvæmt nýrri skýrslu samtakanna Friends of the Earth þar sem sjá má útreikninga á vatns- og landnotkun ýmissa vörutegunda til daglegra nota. Þar kemur fram að um 136 lítra af vatni þurfi til að framleiða einn kaffibolla. Mest af þessu vatni fer í ræktunina og í að fjarlægja hlaupkennt lag utan af baununum. Þá kemur fram að að meðaltali þurfi 13 tonn af vatni og 18 fermetra af landi til að framleiða einn snjallsíma. Samtökin skora á fyrirtæki að stunda ábyrga framleiðslu með því að fylgjast með og draga úr auðlindanotkun og upplýsa neytendur um vistspor framleiðslunnar. Um leið dragi fyrirtækin úr framleiðslukostnaði og auki arðsemi sína.
(Sjá frétt EDIE 12. maí).
Ebay, Kindle og Skype umhverfisvænstu „öppin“
Ebay var valið umhverfisvænsta appið í nýrri könnun ráðgjafafyrirtækisins WSP þar sem „snjalltækjaöppum“ voru gefnar umhverfiseinkunnir. Forritin voru greind með tilliti til jákvæðra umhverfisáhrifa, hversu oft þeim hefði verið halað niður og hversu mikið þau voru notuð. Ebay kom best út úr þessum samanburði, þar sem forritið er mjög vinsælt og ýtir undir endurnýtingu hluta, dregur úr neyslu og úrgangsmyndun og hvetur til sjálfbærrar neyslu. Smáforritið Kindle lenti í öðru sæti þar sem notkun þess dregur úr þörfinni á útprentuðu efni. Skype náði fjórða sæti þar sem það gerir vinnufélögum og fjölskyldum kleift að eiga í samskiptum án langra ferðalaga. WSP bendir á að umhverfisvænstu smáforritin séu ekki endilega þau sem beinast beint að umhverfismálum heldur vinsæl forrit sem eru hluti af hversdagslífinu og ýta undir sjálfbærari lífstíl.
(Sjá frétt EDIE í gær).
Útprentanlegar sólarrafhlöður vekja athygli
Ástralskir vísindamenn hafa þróað „sólarblek“ sem breytir sólarljósi í raforku. Þeir segja stórfyrirtæki hafa mikinn áhuga á tækninni og telja stutt í að hægt verði að hefja framleiðslu. Sólarblekið er prentað á sveigjanleg efni (t.d. plast) sem hægt er að setja upp hvar sem er til að fanga sólarorkuna. Til dæmis væri hægt að hlaða snjallsíma og spjaldtölvur með því að líma slíka filmu á tækin, en einnig væri hægt að líma filmur á glugga og aðra stóra fleti til að framleiða meiri raforku. Sólarblekið er ódýrt í framleiðslu, en orkunýtnin er enn sem komið er aðeins 1/10 af því sem gerist í hefðbundnum sólarrafhlöðum. Vísindamennirnir telja að í framtíðinni muni nýtnin aukast og notkunarmöguleikar bleksins þar með.
(Sjá frétt the Guardian í dag).
Fairphone gefur tóninn fyrir sjálfbæra snjallsíma
Í þriðju útgáfu Fairphone farsímans er lögð áhersla á sjálfbæran uppruna málma, góð vinnuskilyrði og einfaldleika í viðgerðum. Þar með slær fyrirtækið tóninn fyrir umhverfisvæna snjallsíma. Mikið er lagt upp úr því að málmar sem notaðir eru í framleiðsluna séu ekki frá svæðum þar sem átök standa yfir vegna námuvinnslunnar. Reynt er að tryggja sanngjörn laun verkamanna í allri virðiskeðjunni og einnig hefur fyrirtækið sett upp sérstakt skilakerfi fyrir símana. Fyrirtækið iFixit hefur tekið að sér viðhald símanna. Sá samningur felur í sér að auðvelt er að panta varahluti, auk þess sem útbúin hefur verið viðgerðarhandbók sem auðveldar notendum að gera við helstu bilanir upp á eigin spýtur. Auðvelt er að taka snjallsímann í sundur og skipta um það sem bilar, en eins og margir þekkja er oft erfitt að nálgast varahluti fyrir snjallsíma og spjaldtölvur: Neytendum er þá gjarnan ráðlagt á að kaupa sér nýtt tæki frekar en að láta gera við það gamla.
(Sjá frétt Treehugger í gær).
Samsung Galaxy S4 fyrstur með TCO-vottun
Samsung Galaxy S4 varð á dögunum fyrsti snjallsíminn á markaðnum til að fá svonefnda TCO-sjálfbærnivottun, en TCO er óháð alþjóðlegt vottunarkerfi fyrir samskiptabúnað af ýmsu tagi. Til að fá þessa vottun þurfa snjallsímar að uppfylla viðmiðunarkröfur sem ná til alls lífsferils símanna og snúast m.a. um félagslega ábyrgð í framleiðslunni, ýmsa heilsu- og umhverfisþætti á notkunarskeiði, magn hættulegra efna o.fl. Það er von þeirra sem að vottuninni standa að þessi fyrsti TCO-vottaði sími hafi áhrif á það hvernig staðið verði að framleiðslu annarra snjallsíma á næstu misserum.
(Sjá fréttatilkynningu TCO Development 16. maí sl.).