Krybbur frekar en kjúklingar

Ræktun skordýra til manneldis hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið en annað húsdýrahald að því er fram kemur í nýjum rannsóknarniðurstöðum vísindamanna við Kaupmannahafnarháskóla. Síðustu misseri hefur gjarnan verið talað um skordýr sem „fæðu framtíðarinnar“ en umrædd rannsókn er sú fyrsta þar sem helstu umhverfisþættir skordýraræktar eru greindir og lagt fræðilegt mat á umhverfisáhrifin. Rannsóknin byggði á samanburði krybburæktar við kjúklingarækt og meginniðurstaðan var sú að krybburnar kæmu talsvert betur út, einkum vegna þess að þær nýta fóður betur. Talið er mögulegt að minnka vistspor krybbubúskaparins enn frekar með aukinni nýtingu á úrgangsefnum og öðru fóðri sem ekki nýtist kjúklingum eða öðrum hefðbundnum húsdýrum. Krybbur hafa verið ræktaðar til matar í Tælandi í nær 20 ár og þar eru nú um 20 þúsund krybbubú. Um 2.000 tegundir skordýra eru nýttar til matar í heiminum. Flestar þeirra eru veiddar til matar en u.þ.b. 9 tegundir eru ræktaðar til manneldis eða fóðurframleiðslu.
(Sjá frétt ScienceDaily 11. maí).

Einnota skálar úr laufblöðum

teak_bowlsHópur vísindamanna við tælenska Naresuan háskólann hefur þróað einnota, vatnsþéttar og lífbrjótanlegar matarskálar úr laufblöðum. Laufblöð tekktrjáa reyndust best til þessara nota samkvæmt athugunum hópsins og sterkja var notuð til að gefa skálunum gljáa. Skálunum er ætlað að koma í stað frauðplastumbúða sem m.a. eru notaðar í miklum mæli undir skyndimat á matarhátíðum. Það gefur auga leið að skálarnar brotna auðveldlega niður í náttúrunni og hafa því yfirburði framyfir ill-niðurbrjótanlegar einnota umbúðir. Háskólinn bíður nú eftir einkaleyfi til að hægt verði að hefja markaðssetningu skálanna af fullum krafti.
Sjá frétt Bangkok Post 31. mars).