Flokkun lífræns úrgangs komin í tísku

Níu af hverjum tíu Dönum sem eiga þess kost að flokka lífrænan úrgang frá öðrum úrgangi sem til fellur á heimilinu eru ánægðir með fyrirkomulagið samkvæmt niðurstöðum könnunar Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen). Enn hafa aðeins um 30% þjóðarinnar aðstöðu til slíkrar flokkunar en um helmingur hinna 70 prósentanna segist gjarnan vilja hafa þennan möguleika. Aðeins um 15% segja flokkun úrgangs vera erfiða og um 3% vilja hafa færri flokkunarmöguleika en þeir hafa í í dag. Lífrænn heimilisúrgangur er rúmlega 40% af öllum heimilisúrgangi sem til fellur í Kaupmannahöfn.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. september).

Hvar endar flokkaður úrgangur?

InformpeopleSveitarstjórnir og önnur yfirvöld úrgangsmála þurfa að auka til muna upplýsingagjöf til almennings um afdrif flokkaðs úrgangs. Margir telja að flokkuðum úrgangi sé fargað í miklum mæli í stað þess að senda hann til endurvinnslu. Sú er vissulega ekki raunin, en ástæða er til að ætla að gleggri upplýsingar um afdrifin stuðli að meiri og betri flokkun. Þetta er í öllu falli mat bresks úrgangssérfræðings.
(Sjá frétt EDIE 21. nóvember).

Flokkað á skokkinu

Ríkisstjórn Skotlands stofnaði á dögunum sjóð upp á 500.000 sterlingspund (um 96 milljónir ísl. kr.) til að stuðla að bættri flokkunaraðstöðu á almannafæri í skoskum byggðum. Mikill árangur hefur þegar náðst í flokkun úrgangs á heimilum, og því telja Skotar einsýnt að það sama eigi að geta gilt um fjölfarna staði utandyra. Takist að ná flokkunarhlutfallinu upp í 70% fyrir árið 2025 er talið að það samsvari 178 milljóna sterlingspunda (um 34 milljarða ísl. kr.) innspýtingu í hagkerfið. Landeigendur, sveitarfélög og rekstraraðilar geta sótt um framlög úr hinum nýja sjóði til að koma upp aðstöðu fyrir „Recycle on the Go„, þ.e. til flokkunar á skokkinu.
(Sjá nánar í frétt EDIE 28. ágúst sl).