Örplast verði hreinsað úr frárennsli þvottahúsa

Umhverfis- og matvælaráðuneyti Danmerkur (Miljø- og Fødevareministeriet) hefur veitt styrk úr svonefndri MUDP-áætlun til að þróa aðferð til að hreinsa örplast úr frárennsli þvottahúsa. Verkefnið verður unnið í samvinnu við mottuþvottahúsið Berendsen Textil Service í Karup, en þar eru á hverjum degi þvegin um 50 tonn af gólfmottum úr stofnunum og fyrirtækjum. Samkvæmt skýrslu frá Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) koma um 2% af því örplasti sem fyrirfinnst í dönsku fráveituvatni frá þvottahúsum og í hvert skipti sem mottur eru þvegnar skolast út drjúgir skammtar af örplasti úr ryki, skósólum og úr mottunum sjálfum. Styrkurinn frá MUDP nemur tæplega milljón danskra króna (um 15 millj. ísl. kr.) og standa vonir til að verkefnið leiði af sér aðferð sem dugar til að ná 80% af plastögnunum sem annars myndu skolast út.
(Sjá frétt á heimasíðu Miljøstyrelsen 23. febrúar).

ESB bannar 4 skaðleg efni í leikföngum fyrir börn

MI_kosmetikEvrópusambandið samþykkti í dag bann við notkun metýlísóþíasólínóns (MI) og þriggja annarra efna í leikföng fyrir börn undir þriggja ára aldri og í öllum nagleikföngum. MI er rotvarnarefni sem m.a. hefur verið notað í andlitsmálningu fyrir börn og hafa ofnæmisviðbrögð við efninu farið mjög í vöxt á síðustu árum. Tvö hinna efnanna eru einnig ofnæmisvaldandi rotvarnarefni, en þar er um að ræða bensísóþíasólínón (BIT) og klórmetýlísóþíasólínón (CMI). Fjórða efnið er formamíð sem talið er hormónaraskandi og má meðal annars finna í leikmottum fyrir börn. Eftir sem áður má nota rotvarnarefnin þrjú í snyrtivörur fyrir fullorðna, en norrænir neytendur geta varast þessi efni með því að velja Svansmerktar snyrtivörur.
(Sjá frétt á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur í dag).

ESB hvatt til að taka efnamálin föstum tökum

mim-logoÍ bréfi sem danski umhverfisráðherrann Kirsten Brosbøl sendi á dögunum til umhverfis- og iðnaðarstjóra ESB í félagi við starfsbræður sína og systur í Austurríki, Belgíu, Frakklandi, Hollandi, Þýskalandi, Svíþjóð og Noregi er framkvæmdastjórn ESB hvött til að taka fastar á notkun skaðlegra efna í neytendavörum. Ráðherrarnir sjö telja að allt of hægt gangi að takmarka notkun efna sem leitt geta til kostnaðarsamra heilsufarsvandamála á borð við krabbamein, truflanir á hormónastarfsemi, ofnæmi og skerta frjósemi. Í bréfinu er lögð áhersla á fimm undirstöðuatriði, þ.e. að dregið verði úr nálægð neytenda við hormónaraskandi efni, að eftirlit með nanóefnum verði aukið og skaðleysi þeirra tryggt, að einstök sérstaklega skaðleg efni verði bönnuð, að settar verði reglur um skaðleg efni í innfluttum vörum og að efnaiðnaðurinn taki ábyrgð á efnanotkun sinni og tryggi að nægileg þekking sé til staðar á þeim efnum sem notuð eru.
(Sjá frétt á heimasíðu danska umhverfisráðuneytisins í dag).