Kolefniskræfnin minnkar allt of hægt

CO2Kolefniskræfni (e. carbon intensity) hagkerfa heimsins minnkaði um 2,7% á árinu 2014, en kolefniskræfni er mælikvarði á koltvísýringslosun á hvern dollar af vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta kemur fram í tölum sem endurskoðunarfyrirtækið PWC birti í dag. Hér er um að ræða mestu lækkun á einu ári frá því að tölur af þessu tagi voru fyrst birtar fyrir 7 árum. Á árinu jókst samanlögð landsframleiðsla um 3,2% á sama tíma og kolefnislosun jókst um 0,5%. Þessi samdráttur er þó langt frá því að vera nægjanlegur til að hægt verði að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C eins og stefnt er að. Til þess þyrfti kolefniskræfnin að minnka um 6,3% árlega. Talsmaður PwC orðar það svo að þörf sé á byltingu í orkugeiranum í öllum ríkjum heims. Frá árinu 2000 hefur kolefniskræfnin aðeins minnkað um 1,3% á ári að meðaltali og ef sú þróun helst verða jarðarbúar að hætta alfarið að losa kolefni út í andrúmsloftið árið 2036 til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Kolefniskvótinn uppurinn 2034 með sama áframhaldi

CO2 EDIEStærstu hagkerfi heimsins þurfa að draga úr kolefniskræfni sinni (koltvísýringslosun á hverja framleiðslueiningu (e. carbon intensity)) um 6% á ári ef takast á að viðhalda hagvexti án þess að meðalhitastig í heiminum hækki um meira en 2°C á þessari öld, ef marka má nýja skýrslu frá Pricewaterhouse Coopers. Í skýrslunni kemur einnig fram að á síðustu fimm árum hafi kolefniskræfnin aðeins minnkað um 0,7% á ári, og að jafnvel þótt þessi tala væri tvöfölduð muni hitastig hækka um 4°C fyrir aldamót, þ.e. í líkingu við svörtustu spá IPCC (Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar). Ef svo heldur sem horfir verði kolefniskvóti jarðarbúa uppurinn árið 2034, sem þýðir að þá yrði að hætta losun alfarið til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt EDIE 4. nóvember).