Vísindamönnum við Háskólann í Suður-Kaliforníu (USC) hefur tekist, fyrstum manna, að framleiða metanól úr koltvísýringi eins og hann kemur fyrir í andrúmsloftinu. Hingað til hefur metanól einungis verið framleitt úr koltvísýringi í háum styrk og við hátt hitastig. Hin nýja aðferð felst í að dæla andrúmslofti í gegnum vatnslausn af pentaetýlenhexamíni (PEHA) að viðbættum efnahvata sem fær vetni til að bindast koltvísýringi undir þrýstingi. Þessi lausn er síðan hituð upp í 125-165°C sem er mun lægra hitastig en notað hefur verið í fyrri aðferðum. Lægra hitastig útheimtir augljóslega minni orku, auk þess sem það eykur endingu efnahvatans. Með þessu móti hefur vísindamönnunum tekist að breyta 79% af koltvísýringnum í metanól. Þannig eru slegnar tvær flugur í einu höggi. Koltvísýringur er fjarlægður úr andrúmsloftinu og til verður endurnýjanlegt eldsneyti sem getur komið í stað jarðefnaeldsneytis sem orkugjafi og hráefni í efnaiðnaði. Að minnsta kosti 5-10 ár munu þó líða áður en þetta eldsneyti verður orðið samkeppnisfært í verði.
(Sjá frétt ScienceDaily 2. febrúar).