Kolefniskræfnin minnkar allt of hægt

CO2Kolefniskræfni (e. carbon intensity) hagkerfa heimsins minnkaði um 2,7% á árinu 2014, en kolefniskræfni er mælikvarði á koltvísýringslosun á hvern dollar af vergri landsframleiðslu (GDP). Þetta kemur fram í tölum sem endurskoðunarfyrirtækið PWC birti í dag. Hér er um að ræða mestu lækkun á einu ári frá því að tölur af þessu tagi voru fyrst birtar fyrir 7 árum. Á árinu jókst samanlögð landsframleiðsla um 3,2% á sama tíma og kolefnislosun jókst um 0,5%. Þessi samdráttur er þó langt frá því að vera nægjanlegur til að hægt verði að halda meðalhlýnun jarðar innan við 2°C eins og stefnt er að. Til þess þyrfti kolefniskræfnin að minnka um 6,3% árlega. Talsmaður PwC orðar það svo að þörf sé á byltingu í orkugeiranum í öllum ríkjum heims. Frá árinu 2000 hefur kolefniskræfnin aðeins minnkað um 1,3% á ári að meðaltali og ef sú þróun helst verða jarðarbúar að hætta alfarið að losa kolefni út í andrúmsloftið árið 2036 til að komast hjá hlýnun umfram 2°C.
(Sjá frétt PlanetArk í dag).

Hagvöxtur jókst 2014 án aukinnar losunar

IEA_wind_160Árið 2014 var sögulegt að því leyti að hagvöxtur jókst án þess að mælanleg aukning yrði á losun gróðurhúsalofttegunda, að því er fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðaorkumálastofnuninni (IEA). Síðustu 40 ár hefur aukinn hagvöxtur alltaf skilað sér í aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en losunin stóð í stað á milli áranna 2013 og 2014 þrátt fyrir 3% hagvöxt. Losun hefur stundum minnkað milli ára, en samdrátturinn hefur þá alltaf tengst fjármálakreppum. IEA telur þessa þróun mála 2014 benda til að áhersla á endurnýjanlega orku sé farin að skila sér í aftengingu hagvaxtar og losunar. Stofnunin bendir þó á að losun gróðurhúsalofttegunda sé enn mjög há og mikilvægt sé að ríkisstjórnir leggi aukna áherslu á umbreytingu orkuframleiðslunnar.
(Sjá frétt The Verge 13. mars).

Samdráttur í losun fylgir ekki samdrætti í landsframleiðslu

Losun gróðurhúsalofttegunda eykst á hagvaxtarskeiðum, en minnkar ekki að sama skapi á samdráttarskeiðum ef marka má rannsókn Richards York við Háskólann í Oregon, byggða á hagvaxtartölum 150 þjóða á tímabilinu 1960-2008. Koltvísýringslosun jókst að meðaltali um 0,73% fyrir hvert 1% aukinnar landsframleiðslu, en drógst saman um 0,43% þegar landsframleiðslan minnkaði um 1%. Því er sem sagt ekki að treysta að álag á umhverfið minnki sjálfkrafa í takt við efnahagslegan samdrátt.
(Sjá nánar í frétt PlanetArk í gær).