Koltvísýringur ruglar fiska í ríminu

160120141525_1_540x360Hækkandi styrkur koltvísýrings í heimshöfunum getur ruglað fiska í ríminu og skert ratvísi þeirra. Þetta samhengi hefur verið þekkt um hríð, en nýjar rannsóknir vísindamanna við Háskólann í Nýja Suður-Wales í Ástralíu (UNSW) benda til að þetta geti gerst mun fyrr en áður var talið. Þannig gætu fiskar á tilteknum hafsvæðum, þ.m.t. í Norður-Atlantshafi, verið komnir í annarlegt ástand vegna koltvísýringshækkunar um miðja þessa öld. Um næstu aldamót gæti um helmingur allra dýra í heimshöfunum verið orðinn ringlaður af þessum sökum. Þessar breytingar munu hafa víðtæk áhrif á lífríki og hagkerfi ef svo heldur sem horfir.
(Sjá frétt Science Daily í dag).

Súrnun sjávar dregur úr virkni sjávarbaktería

bacteriaSúrnun sjávar hefur gríðarleg áhrif á virkni sjávarbaktería samkvæmt nýrri rannsókn frá Linnaeus háskólanum í Svíþjóð, en þar kemur fram að til að geta tekist á við lægra sýrustig þurfi bakteríurnar að draga verulega úr annarri virkni. Bakteríur gegna mikilvægu hlutverki í hringrás næringarefna í sjónum þar sem þær brjóta m.a. niður lífræn efni sem eru losuð í sjóinn með skólpi og sem verða til þegar smásæir þörungar deyja. Segja má að bakteríurnar séu skólphreinsistöðvar hafsins og þær stuðla að heilbrigðu vistkerfi. Þar að auki aðstoða bakteríurnar við að leysa úr læðingi köfnunarefni, fosfór og önnur næringarefni sem eru undirstaða fæðukeðjunnar. Talið er að heimshöfin verði um þrefalt súrari um næstu aldamót en þau eru nú, en hingað til hafa rannsóknir á áhrifum súrnunarinnar aðallega snúið að kóralrifum, kalkkenndum þörungum og skelfiski. Bein áhrif á bakteríuflóruna gæti haft ófyrirsjánleg áhrif á alla fæðukeðjuna.
(Sjá frétt Science Daily 12. janúar).

Nýjar kynslóðir fiska venjast ekki súrum sjó

ENN_fiskarSvo virðist sem nýjar kynslóðir fiska eigi jafnerfitt með að aðlagast háum styrk koltvísýrings í sjónum og forfeður þeirra. Þetta kemur fram í rannsókn sem sagt er frá í tímaritinu Nature Climate Change. Þetta þykir benda til þess að sjávardýr muni aldrei ná að aðlagast að fullu því breytta umhverfi sem loftslagsbreytingarnar hafa í för með sér og að áhrifin muni þannig ekki aðeins bitna á þeim kynslóðum sem nú lifa, heldur einnig á fiskistofnum framtíðarinnar.
(Sjá frétt ENN 6. október).

Banvæn þrenning ógnar höfunum

Hvalir GL ReutersNiðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar sem kynntar voru fyrr í dag benda til að samverkandi áhrif hlýnunar, súrnunar og minnkandi súrefnismettunar hafi mun meiri skaðleg áhrif á lífríkið í höfunum en menn hafa áður gert sér grein fyrir, og er jafnvel talað um „banvæna þrenningu“ í þessu sambandi. Hafið hlýnar smám saman vegna hlýnunar andrúmsloftsins, súrnar vegna upptöku koltvísýrings úr andrúmsloftinu og verður súrefnissnauðara vegna aukins þörungagróðurs í kjölfar útskolunar næringarefna frá landi. Ástandið í höfunum er orðið svipað því sem það var á Paleósen-Eósen mörkunum fyrir um 55 milljónum ára þegar fjöldi tegunda dó út. Breytingarnar sem nú eru að verða gerast hins vegar mun hraðar en þá.
(Sjá frétt Reuters í dag)