Kolefni á föstu formi unnið úr koltvísýringi

Japanskir og kínverskir vísindamenn sem unnið hafa að þróun litíum-loft-rafhlöðu hafa fyrir tilviljun uppgötvað aðferð sem hugsanlega er hægt að beita til að framleiða kolefnisduft og hreint súrefni úr koltvísýringi andrúmsloftsins. Á þessu stigi dugar aðferðin einungis fyrir óblandaðan koltvísýring en ef takast mætti að beita henni á koltvísýring í andrúmslofti gæti það opnað alveg nýja möguleika í kolefnisbindingu. Nýjungin felst ekki síst í því að ná kolefninu á föstu formi í stað þess að þurfa að fást við lofttegundir sem síðan þarf að þjappa eða breyta í vökva með tilheyrandi orkueyðslu. Fræðilega séð mætti nota sömu aðferð til að hreinsa tilteknar mengandi lofttegundir úr andrúmsloftinu.
(Sjá frétt Science Daily 9. ágúst).

Rafbílar ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022

EVsRafbílar verða orðnir ódýrari en hefðbundnir bílar árið 2022 samkvæmt nýrri greiningu Bloomberg New Energy Finance (BNEF) á rafbílamarkaðnum. Stærsti einstaki liðurinn í að lækka verð á rafbílum er þróun ódýrarri rafhlaðna, en verð á litíum rafhlöðum hefur lækkað um 65% frá árinu 2010. Þrátt fyrir að eldsneytisnotkun bílaflotans minnki um 3,5% á ári munu ódýrari rafhlöður lækka kaupverð það mikið að bætt olíunýting hefðbundinna bíla mun ekki vega það upp. Rafbílavæðing er mikilvægur þáttur í að draga úr loftslagsbreytingum og bæta loftgæði, en þrátt fyrir ríkisstyrki er aðeins um 1% af seldum bílum í dag rafbílar. Samkvæmt greiningunni mun hlutfall nýrra rafbíla ekki ná yfir 5% fyrr en árið 2022 þegar þeir verða orðnir ódýrari kostur, en eftir það er líklegt að hlutfallið hækki mjög hratt. Samkvæmt greiningunni munu rafbílar verða 35% af seldum bílum árið 2040 og bílaflotinn þá orðinn 25% rafvæddur. Þessi þróun ráðist þó mjög af þróun á olíuverði.
(Sjá frétt the Guardian 25. febrúar).

Álrafhlöður næsta bylting í orkugeymslu

aluminiumbattery_160Vísindamenn við Háskólann í Stanford hafa þróað hraðhleðslurafhlöðu úr áljónum sem talin er geta orðið fýsilegur valkostur við geymslu á endurnýjanlegri orku í dreifikerfum. Geymsla á umframorku, t.d. frá vindorkuverum, er ein helsta forsenda þess að hægt verði að auka hlut endurnýjanlegrar orku í dreifikerfum í Evrópu. Einn helsti kostur nýju álrafhlöðunnar er endingin, en hægt er að hlaða rafhlöðuna um 7.500 sinnum án þess að geymslugetan minnki. Til samanburðar er hægt að hlaða venjulegar litíumrafhlöður um 1.000 sinnum. Rafhlaðan hefur einnig þann kost að hægt er að hlaða hana mjög hratt og eins getur hún skilað orku hratt inná dreifikerfið. Ál er auk þess mun ódýrara en t.d. litíum. Álrafhlaðan nýtist ekki eingöngu til geymslu í dreifikerfum heldur telja vísindamenn að hún muni verða vinsæll kostur í fartölvum og snjallsímum vegna þess hversu skamman tíma hleðslan tekur.
(Sjá frétt EDIE 7. apríl).