Nýtt vottunarkerfi fyrir aðfangakeðjur

29052 (160x107)Fyrirtækið Carbon Trust kynnti í dag nýjan staðal fyrir vottun á aðfangakeðjum fyrirtækja með tilliti til kolefnislosunar. Til að fá vottun þurfa fyrirtæki að koma á samstarfi við birgja um minnkun kolefnislosunar og sýna fram á að tekist hafi að draga úr losun í einstökum hlutum aðfangakeðjunnar. Með staðlinum, sem er sá fyrsti sinnar tegundar í heiminum, er komið til móts við fyrirtæki sem hafa áttað sig á að bein umhverfisáhrif innan fyrirtækisins eru yfirleitt aðeins brot af þeim áhrifum sem verða til ofar í aðfangakeðjunni, svo sem við vinnslu hráefna, framleiðslu íhluta o.s.frv. Vottun aðfangakeðjunnar er því mikilvægur liður í að draga úr heildaráhrifum hinnar endanlegu vöru á umhverfið.
(Sjá frétt EDIE í dag).

HP notar umbúðir úr hálmi

25962_160Tölvurisinn Hewlett-Packard hefur tekið í notkun umbúðir úr hálmi á framleiðslustöðum sínum í Kína. Yfirleitt er hálmurinn brenndur til að rýma fyrir næstu uppskeru en nú er hann þess í stað nýttur til framleiðslu bylgjupappa og umbúða úr mótuðum pappamassa. Samkvæmt upplýsingum frá HP hefur framleiðsla umbúða úr hálmi í för með sér 90% minni vatnsnotkun, 40% minni orkunotkun og 25% minni losun koltvísýrings en hið hefðbundna framleiðsluferli þar sem pappamassi er unninn úr viði. Notkun hálms minnkar álag á nytjaskóga auk þess sem umbúðirnar eru léttari og skila því bæði umhverfislegum og fjárhagslegum sparnaði í flutningum. Þar að auki hefur þessi nýjung skapað störf og bætt afkomu bænda í sveitum Kína.
(Sjá frétt EDIE 3. mars).