Evrópskir fólksbílar verða sífellt sparneytnari að því er fram kemur í tölum frá Umhverfisstofnun Evrópu (EEA). Fólksbílar sem skráðir voru á árinu 2015 í löndum ESB losuðu að meðaltali 119,6 grömm af koltvísýringi á hvern ekinn kílómetra, sem er 3% minna en árið áður og vel undir markmiði ESB fyrir árið 2015 þar sem gert var ráð fyrir meðallosun upp á 130 g/km. ESB er nú tveimur árum á undan áætlun í þessum efnum, en næsta markmið er að meðallosun fari undir 95 g/km árið 2021. Við þetta má þó bæta að sala nýrra bíla jókst um 9% milli ára. Aðeins um 1,3% nýrra bíla voru tvinn- eða rafbílar en í einstökum löndum var hlutfallið mun hærra, t.d. 12% í Hollandi. Þrátt fyrir litla markaðshlutdeild fjölgaði nýjum rafbílum um 50% milli áranna 2014 og 2015.
(Sjá frétt Umhverfisstofnun Evrópu 14. apríl).