Kolefni á föstu formi unnið úr koltvísýringi

Japanskir og kínverskir vísindamenn sem unnið hafa að þróun litíum-loft-rafhlöðu hafa fyrir tilviljun uppgötvað aðferð sem hugsanlega er hægt að beita til að framleiða kolefnisduft og hreint súrefni úr koltvísýringi andrúmsloftsins. Á þessu stigi dugar aðferðin einungis fyrir óblandaðan koltvísýring en ef takast mætti að beita henni á koltvísýring í andrúmslofti gæti það opnað alveg nýja möguleika í kolefnisbindingu. Nýjungin felst ekki síst í því að ná kolefninu á föstu formi í stað þess að þurfa að fást við lofttegundir sem síðan þarf að þjappa eða breyta í vökva með tilheyrandi orkueyðslu. Fræðilega séð mætti nota sömu aðferð til að hreinsa tilteknar mengandi lofttegundir úr andrúmsloftinu.
(Sjá frétt Science Daily 9. ágúst).

Ný umhverfisvæn aðferð við endurheimt litíums

Alfalfafururafhl (160x89)Vísindamenn við háskólann í Uppsölum í Svíþjóð hafa þróað nýja umhverfisvæna tækni til að endurheimta litíum úr litíumrafhlöðum og öðrum rafeindabúnaði, en þetta hefur verið vandkvæðum bundið til þessa. Aðferðin byggir á nýtingu lífrænna efnasambanda og með henni má endurheimta litíum við lágt hitastig án mikilla umhverfisáhrifa. Hið endurheimta litíum nýtist síðan í nýjar rafhlöður úr endurnýjanlegum efnum sem m.a. eru fengin úr refasmára (e. alfalfa) og furukvoðu. Þessar rafhlöður geta geymt 99% af þeirri orku sem rúmast í þeim litíumrafhlöðum sem nú eru í notkun, auk þess sem þær eru endurvinnanlegar og samkeppnishæfar í verði. Með þessu kunna að opnast nýir og umhverfisvænni möguleikar en áður hafa þekkst í orkugeymslu.
(Sjá frétt Science Daily 29. september).