Eldfim á í Ástralíu!

australiaSvo mikið metangas streymir nú inn í Condamine ána í Queensland í Ástralíu að hægt er að kveikja í ánni. Á þessu svæði er mikið af jarðgasi unnið með bergbroti (e. fracking) en ástralski græningjaflokkurinn hefur beitt sér fyrir því að slík starfsemi verði bönnuð í landinu. Formaður flokksins bar sjálfur eld að ánni til að ganga úr skugga um gasinnihaldið. Eldurinn logaði í klukkutíma samfellt.
(Sjá frétt ENN 23. apríl).

Betri orkunýtni gerir ESB minna háð Rússum

The logo of Russian gas producer Gazprom.Hægt er að draga úr þörf Evrópusambandsríkja fyrir rússneskt jarðgas um þriðjung með því að ríki sambandsins setji sér ströng markmið í orkunýtni. Þetta er mat Institute for Public and Policy Research í framhaldi af umræðum innan ESB um refsiaðgerðir gegn Rússum vegna framgöngu þeirra í Úkraínu, en hugsanlegt er talið að Rússar skrúfi fyrir gasið til að svara refsiaðgerðunum. Um 34% af orkunotkun innan ESB eru háð rússnesku jarðgasi og hefur þetta hlutfall hækkað á síðustu árum. Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Slóvakía og Búlgaría fá jafnvel alla sína orku með þessum hætti. Haft er eftir Rear Admiral Morisetti, fyrrum sendifulltrúa Bretlands, að þróun mála í Úkraínu og Mið-Austurlöndum hafi undirstrikað viðkvæmni orkuframboðs og þá pólitísku spennitreyju sem Evrópa er í á meðan hún er háð jarðefnaeldsneyti frá þessum óstöðugum svæðum. Besta leiðin til að losna úr spennitreyjunni sé að draga úr orkunotkun.
(Sjá frétt the Guardian í dag).

Saurgerlar framleiða eldsneyti

Specialist Jelena Kovalkova works to isolate the Escherichia coli (E.coli) bacteria strain in RigaBreskir og finnskir vísindamenn hafa þróað aðferð til að láta E. coli bakteríuna framleiða própangas, en E. coli er mjög algengur saurgerill sem finnst í meltingarfærum manna. Própan er aðaluppistaðan í fljótandi jarðolíugasi (LPG) sem notað er sem eldsneyti á bíla, til upphitunar og sem gas fyrir grillið. Framleiðsla própans er hagkvæm að því leyti að víða er til staðar dreifikerfi fyrir efnið. Própan er tiltölulega hreint eldsneyti með lágt kolefnisinnihald og er aukaafurð við hreinsun olíu og vinnslu á jarðgasi. E. coli aðferðin er enn á þróunarstigi, en hún byggir á því að láta bakteríurnar framleiða própan úr fitusýrum sem annars væru notaðar sem byggingarefni í frumuhimnu. Vísindamennirnir vonast til að eftir 5-10 ár verði hægt að nota tæknina til framleiðslu á samkeppnishæfu endurnýjanlegu eldsneyti sem komið getur í stað jarðefnaeldsneytis.
(Sjá frétt PlanetArk í gær)