Eiturefni í söluvarningi fyrir HM 2014

hm2014Varningur frá Nike, Adidas og Puma sem ætlaður er til sölu í tengslum við heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu sem hefst í Ríó í næsta mánuði, inniheldur ýmis skaðleg efni yfir leyfilegum mörkum að því er fram kemur í nýrri skýrslu Greenpeace, A Red Card for Sportswear Brands. Skýrslan byggir á greiningu á 33 vörutegundum sem settar hafa verið á markað í tilefni af keppninni, nánar tiltekið 21 tegund af fótboltaskóm, 7 bolum, fjórum mismunandi markmannshönskum og hinum opinbera fótbolta mótsins. Óháðar rannsóknarstofur í Þýskalandi og Bretlandi fundu meðal annars perflúorkolefni (PFC), nónýlfenóletoxýlat (NPE), þalöt og dímetýlformamíð (DMF) í vörunum, en þessi efni eru talin vera krabbameinsvaldandi, hormónaraskandi og hafa áhrif á frjósemi. Allir skór sem skoðaðir voru innihéldu bæði þalöt og DMF og 13 skótegundir af 21 innihéldu PFC yfir leyfilegum mörkum Evrópusambandsins í textílvöru. Fyrirtækin þrjú taka öll þátt í DETOX-verkefni Greenpeace sem hefur það að markmiði að hætta notkun á skaðlegum efnum fyrir árið 2020.
(Sjá frétt Fashion Forum í dag).

Hættuleg efni í burðarpokum

Burðarpoki crNokkrar tegundir burðarpoka fyrir börn innihalda efni sem talin eru líklegir krabbameinsvaldar, geta truflað hormónastarfsemi líkamans og dregið úr frjósemi. Þetta kom í ljós í könnun dönsku neytendasamtakanna Tænk í síðasta mánuði. Þar voru tólf mismunandi vörur af þessu tagi teknar til skoðunar og reyndust þrjár þeirra innihalda hættuleg efni. Þetta voru burðarpokar af tegundunum Britax og Stokke MyCarrier og burðarsjalið Babylonia BB-sling. Tvær þær fyrrnefndu innhéldu varasöm eldvarnarefni og í burðarsjalinu leyndust nonýlfenólethoxýlöt (NPE). Nýlega var samþykkt að banna notkun tiltekinna eldvarnarefna í leikföng innan ESB en bannið nær ekki til burðarpoka, enda þótt börn komist ekki síður í nána snertingu við þá en við leikföngin.
(Sjá frétt á heimasíðu Tænk í dag).

Dýru barnafötin líka eitruð

TískulygiHelstu tískurisar heimsins nota hættuleg efni við framleiðslu á barnafötum, ekki síður en aðrir framleiðendur. Þetta kemur fram í skýrslunni A Little Story about a Fashionable Lie sem Greenpeace kynnti á dögunum í tengslum við tískuvikuna sem nú stendur yfir í Mílanó. Í rannsókn Greenpeace fundust leifar af hættulegum efnum í 16 flíkum af 27 sem teknar voru til skoðunar. Meðal þessara efna voru þalöt og perflúoruð efni (PFC), svo og nonýlfenólethoxýlöt (NPE), sem enn eru notuð sem bleikiefni í fataiðnaði þrátt fyrir mikla skaðsemi í umhverfislegu og heilsufarslegu tilliti og þrátt fyrir að notkun þeirra sé bönnuð í fataframleiðslu innan ESB. Rannsókn Greenpeace náði til fataframleiðendanna Dior, Dolce&Gabbana, Giorgio Armani, Hermés, Louis Vuitton, Marc Jacobs, Trussardi og Versace. Trussardi var eina merkið þar sem ekki fundust hættuleg efni.
(Sjá fréttatilkynningu Greenpeace 17. febrúar).

Æskilegt að þvo föt fyrir notkun

NPE barn IMSBarnaföt geta innihaldið leifar af nónýlfenólethoxýlötum (NPE), sem sums staðar eru notuð sem hjálparefni í textílframleiðslu. Þetta kom fram í könnun Greenpeace í nóvember 2012, en nú hefur Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) staðfest þetta með nýrri athugun. Ekki er talin ástæða til að óttast heilsutjón af völdum þessara efna í fatnaði, en engu að síður mælir Miljøstyrelsen með að föt séu þvegin fyrir notkun. Við fyrsta þvott lækkar styrkur NPE um 25-99%, en í staðinn skolast efnið út í umhverfið. Þeir sem vilja vera lausir við efni af þessu tagi ættu að kaupa fatnað með umhverfismerkjum á borð við Svaninn og Umhverfismerki ESB, eða með GOTS-merkinu.
(Sjá frétt forburgerkemi.dk 10. janúar).

Hættuleg efni í tískufatnaði

Margir af stærstu fataframleiðendum heims nota krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi efni í framleiðslu sinni. Í umfangsmikilli könnun á vegum Greenpeace sem sagt var frá í gær fundust efni á borð við þalöt, nónýlfenólethoxýlat (NPE) og amín, en öll þessi efni geta haft skaðleg áhrif á heilsu og frjósemi fólks í tiltölulega litlum skömmtum. Alls var skoðuð 141 flík og reyndust 63% þeirra innihalda efni af þessu tagi. Þetta gilti jafnt um ódýrari fatamerki á borð við Zara, Jack&Jones, Only og Vero Moda – og dýrari merki á borð við Esprit og Benetton og sömuleiðis Armani og Calvin Klein. Efni sem þessi eru ekki nauðsynleg í fataiðnaði og finnast t.d. ekki í umhverfismerktum fatnaði.
(Sjá frétt á heimasíðu Greenpeace í gær).